Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Okkur mun takast að færa líf okkar í betra horf“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld að framundan væri tími endurreisnar og að framtíðin væri björt. Ekki sæi enn fyrir endann á faraldrinum, en að eitt vissum við þó: „Þessu lýkur, og ég veit að okkur mun takast að færa líf okkar í betra horf,“ sagði hún.

„Þó hér á landi hafi þurft að grípa til margvíslegra aðgerða þá hefur okkur tekist að fást við faraldurinn án þess að þurfa að grípa til jafnharkalegra aðgerða og í flestum nágrannalöndum okkar,“ sagði hún og minntist á að metfjöldi hefði ferðast innanlands í sumar og margir á staði sem þeir hefðu aldrei áður komið á. „Umræðuefni kaffitímans á fjölmörgum vinnustöðum voru áfangastaðir eins og Stuðlagil og Græni-hryggur, Stórurð og Látrabjarg,“ sagði hún.

Tími endurreisnar framundan

Katrín sagði að þegar faraldurinn hefði fyrst borist hingað til lands hefðu stjórnvöld samstundis gripið inn í með efnahagsaðgerðum til að tryggja afkomu fólks og styðja við almenning og atvinnulíf. Framundan væri tími endurreisnar: „Þar sem við munum efla opinbera fjárfestingu, verja velferð og beita til þess krafti ríkisfjármálanna.“ Staða þjóðarbúsins hefði verið sterk fyrir, skuldir lágar og Seðlabankinn hefði öflugan gjaldeyrisvaraforða. 

Fagnar því að friði á vinnumarkaði hafi ekki verið raskað

Forsætisráðherra nefndi að samvinna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hefði bætt samskipti á vinnumarkaði og fagnaði því að samningum á vinnumarkaði hefði ekki verið sagt upp fyrr í vikunni. „Þar með getum við samhent snúið okkur að stóru áskoruninni sem er að skapa störf og tryggja að atvinnuleysi verði ekki langvarandi böl í samfélagi okkar,“ sagði hún. 

„Þetta verður græn viðspyrna“

Katrín sagði að fjármálaáætlunin gæfi til kynna staðfastan vilja stjórnvalda til að verja árangur í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfis auk þess að styðja menntun, rannsóknir og nýsköpun. Þá vildu þau hvetja til einkafjárfestingar og tryggja að kraftar hennar styddu við græna umbreytingu og kolefnishlutleysi. Hún talaði um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og sagði að á síðustu tæpum þremur árum hefði orðið viðsnúningur í baráttunni við loftslagsvána: „Og ekki seinna vænna.“

Lægri skattar á tekjulága og lengra fæðingarorlof

Þá talaði Katrín um mikilvægi þess að tryggja jöfnuð og félagslegt réttlæti í þeim hamförum sem nú dynja yfir. „Um áramót munu skattar lækka á tekjulægri hópa. Við höfum ákveðið að lengja fæðingarorlof og í vetur mun Alþingi glíma við hvernig staðið skuli að skiptingu þess milli foreldra,“ sagði hún. Í vetur tækist ríkisstjórnin svo á við að bæta réttarstöðu leigjenda og draga úr vægi verðtryggingar í húsnæðislánakerfinu. 

Þá talaði Katrín um að áhersla yrði lögð á velsæld barna, til dæmis frumvarp um ný ákvæði til að styrkja stöðu barna með ódæmigerð kyneinkenni, auk þess sem hún sagði að staða fylgdarlausra barna á flótta yrði endurskoðuð, sem og aðferðafræði við hagsmunamat barna sem hingað kæmu í leit að skjóli. 

„Nú fær Alþingi tækifæri til að stíga skrefið“

Katrín sagði að í vetur myndi Alþingi takast á við ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði þjóðareign. „Nú fær Alþingi tækifæri til að stíga skrefið og setja slíkt ákvæði, skýrt og knappt, inn í stjórnarskrá til að tryggja réttlæti til framtíðar,“ sagði hún. „Alþingi getur ákveðið að standast þetta mikilvæga próf og taka efnislega umræðu um það í stað þess að festast í hjólförum liðinna ára og áratuga.“

Bjart framundan

Þá sagði hún að þótt nú mætti lesa kunnuglega spádóma í aðdraganda kosninga um að „allt muni leysast upp í karp um keisarans skegg“, þyrfti að hafa í huga að á bak við átökin og skoðanaskiptin væru ólíkar stefnur og hugmyndir sem gætu styrkt hver aðra eða kveikt nýjar. 

„Þó að faraldurinn hafi reynst erfiður þá er bjart framundan. Við erum ýmsu vön hér á hjara veraldar. Við þekkjum það úr sögunni að í íslensku samfélagi býr kynngikraftur og með þeim krafti munum við spyrna okkur sterklega frá botni,“ sagði Katrín að lokum.