Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ófaglærð ungmenni vilja mennta sig meira

01.10.2020 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Spáð hefur verið að þriðjungur starfa á íslenskum vinnumarkaði muni taka miklum breytingum á næstu árum. Jafnframt er búist við töluverðum breytingum á sex af hverjum tíu störfum.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, segir í samtali við fréttastofu mesta breytingu verða fyrir þann hóp sem eingöngu hefur grunnskólamenntun. Talið er að allt að 45% starfa sem sá hópur sinnir muni breytast mjög eða hverfa alveg.

Guðbjörg er ein fjölmargra sem flytja erindi á Menntakviku Háskóla Íslands. Hún flutti sitt erindi í morgun en alls verða flutt um 340 erindi í 87 málstofum á netinu.

Hún lagði spurningar fyrir 154 ungmenni 18-29 ára í febrúar sem öll höfðu verið í vinnu sex mánuði á undan. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa hætt námi eftir grunnskóla og bjóðast aðeins ósérhæfð störf á vinnumarkaði. Flest vinna þau mikið og aðallega verkamanna- og þjónustustörf.

Meðal ástæðna sem urðu til þess að ungmennin hættu námi nefndi Guðbjörg námsleiða, skort á áhuga og jafnvel fátækt. Þær ástæður eru samhljóða því sem fram kemur í öðrum rannsóknum á þessu sviði.

Að sögn Guðbjargar virðist sem drengir komist í flóknari störf en stúlkur, þá tengd vélum og viðhaldi þeirra, í landbúnaði og öðru af því tagi. Hún segir það geta skýrt aukna sókn kvenna í framhalds- og háskólamenntun að til þess að fá starf sem krefst meiri leikni þurfi þær á menntun að halda.

Guðbjörg kannaði meðal annars hvort unga fólkið teldi sig vinna mannsæmandi starf, sem er hugtak ættað frá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Það felur í sér að fólk hafi ákveðin réttindi, geti þroskað sig og þróað og ekki sé munur á rétti karla og kvenna. Hún sagði að sér hefði komið á óvart að stúlkurnar teldu sig síður vera í mannsæmandi starfi en piltarnir.

Guðbjörg kveður þennan hóp standa verr að vígi en aðrir Íslendingar þegar kemur að því að gera áætlanir um framtíð í starfi. Rannsóknin sýndi að hópurinn áttar sig ekki á eigin stöðu og eigi erfitt með að meta hvað gera beri í sínu starfi til að bæta stöðuna til framtíðar.

Þau eigi erfiðara með að skipuleggja næstu skref auk þess sem oft skorti stuðning því þau standi lakar félagslega. Flest dreymir ungmennin um önnur störf en þau stunduðu þegar rannsóknin var gerð. Í ljós kom að ef engin ljón væru í veginum vildu þau langflest fara í sérfræði- og tæknistörf.

Yngri þátttakendurna langar meira að breyta til og jafnvel halda áfram námi en þau eldri. Sömuleiðis telja þau auðveldara að snúa aftur í nám skömmu eftir að þau yfirgáfu framhaldsskóla.

Eftir því sem árunum fjölgar er að sjá sem þeim finnist það ólíklegra en 71% þeirra sem ætla sér aftur í framhaldsnám telja sig munu ljúka því. Að sögn Guðbjargar Vilhjálmsdóttur þyrfti þessi hópur sem stundar störf fyrir ófaglærða að fá stuðning til að afla sér menntunar sem miðaðist við þarfir þeirra.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV