Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ódýrt tal forsætisráðherra um „græna byltingu“

01.10.2020 - 20:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það er ódýrt að heyra forsætisráðherra tala um „græna byltingu“ þegar hún leggur sama dag fram fjárlög og fjármálaáætlun sem gefa engin fyrirheit um slíkt,“ sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, var tíðrætt um börn í sinni ræðu, bæði þau sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og fylgdarlaus börn á flótta.

Dugar ekkert minna en græn atvinnubylting

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi að Ísland setti sér mun veikari loftslagsmarkmið en Danmörk og Noregur. Hann sagði að nú væri þörf á að „stíga miklu fastar til jarðar í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Við núverandi aðstæður dugar nefnilega ekkert minna en raunverulega græn atvinnubylting,“ sem ríkisstjórnin stæði alls ekki fyrir. 

Mynd: RÚV / RÚV

„Á tímum loftslagshamfara og heimsfaraldurs höfum við ekki efni á því að leyfa hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og fjármálastefnu hægrimanna að ráða för. Það er einfaldlega alltof mikið í húfi. Og þessvegna er mikilvægara en nokkru sinni að við, sem höfum önnur gildi og trúum á aðra leið, séum ábyrg, staðföst og snúum bökum saman,“ sagði Logi. Þá sagði hann að lausnir jafnaðarstefnunnar væru mikilvægastar í baráttunni við heimsfaraldurinn. 

„Við þurfum að ráðast í miklu markvissari vinnumarkaðsaðgerðir, taka vel utan um atvinnuleitendur og gera fyrirtækjum kleift að ráða fleiri til starfa,“ sagði Logi. 

Segir ríkisstjórnina leggja bann við nauðsynlegum aðgerðum barna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að stefna ríkisstjórnarinnar væri „absúrd, hún er fáránleg“. Hann ræddi sérstaklega málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni en Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram frumvarp sem ætlað er að tryggja rétt barna, sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum. Sigmundur sagði frumvarpið „líklegasta óhugnanlegasta þingmál“ sem hann myndi eftir í seinni tíð. „Börn geta fæðst með ýmis konar fæðingargalla. Stundum er ekkert við því að gera, en sem betur fer gera nútíma vísindi okkur kleift að bæta úr mörgum þeirra. En nú er lagt til að óheimilt verði að gera aðgerðir til að lagfæra, lækna, ákveðin líffæri, eða það sem kallað er ódæmigerð kyneinkenni, “ sagði hann. Það sagði hann aðför að réttindum barna og foreldra.

Mynd: RÚV / RÚV

Þá gagnrýndi Sigmundur að forsætisráðherra hefði boðað breytingar á lögum um móttöku fylgdarlausra barna. „Markmiðið er væntanlega að gefa þeim forgang til hælisveitinga,“ sagði hann. Hann lýsti yfir áhyggjum sínum af því að með því að setja sérreglur um fylgdarlaus börn yrði stuðlað að því að þau „yrðu send ein af stað í hættuför“.