Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mikil ábyrgð fylgir krabbameinsskimunum

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Illa ígrunduð krabbameinsskimun getur valdið meiri skaða en ávinningi. Alltaf þarf að gæta að því að skaðinn sé ekki meiri en ávinningurinn. Það mat getur verið bæði vísindalega og siðferðilega flókið.

Þetta segir Ástríður Stefánsdóttir, læknir og dósent í hagnýtri siðfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem flytur erindi um efnið á Menntakviku Háskóla Íslands á morgun.

Þar veltir hún fyrir sér þeirri spurningu hvort skimanir séu ávallt gagnlegar eða hvort og þá hvernig þær geti valdið skaða. Í samtali við fréttastofu segir Ástríður að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að skimanir eru ekki snemmgreiningar.

Hún segir þær aðeins gefa vísbendingar um líkur og sýni eingöngu hve mikil eða lítil áhætta sé á að skimaður einstaklingur fái sjúkdóm. Með lítilli eða lágri áhættu sé ekki endilega staðfest að viðkomandi fái ekki sjúkdóm.

Lítið hafi almennt verið fjallað um þá áhættu sem felist í þátttöku í krabbameinsskimun, bæði fyrir einstaka þátttakendur en einnig fyrir almenna lýðheilsu.

Hér sé um að ræða niðurstöður sem veki upp flóknar og erfiðar læknisfræðilegar, pólitískar og siðferðilegar spurningar um skimanir, til að mynda um fórnarkostnað og forgangsröðun sem mikilvægt sé að ræða á opinberum vettvangi.

Reynist áhætta há eftir skimun er fólk sent áfram í greiningu sem er inngrip sem aukaverkanir geti fylgt. Því fylgi kvíði og áhætta. Ástríður segir til að mynda að brjóstamyndatökur sé torvelt að greina, og erfitt að átta sig á hvort forstigseinkenni verði að krabbameini.

Við skimun sé greint krabbamein á byrjunarstigi og það meðhöndlað með skurðaðgerð og hugsanlega með geislum og lyfjum. Þetta byrjunarstig hefði þó ekki nauðsynlega þróast í krabbamein sem hefði valdið einstaklingi skaða.

Deilt er um umfang svonefndra ofgreininga eftir skimun. Vandinn við þær greiningar er að ógerningur er að meta fyrir fram hvaða mein hefðu orðið skaðleg og hver ekki.

Að sögn Ástríðar er hugsanlegt að þannig sé háttað um kringum eitt af hverjum fimm greindum krabbameinum hjá einkennalausum konum á aldursbilinu 50–70 ára. Þannig sé hætta á ofgreiningu, sem sé algeng.

Ástríður segir vel heppnaðar skimanir geta lækkað tíðni krabbameins og bjargað mannslífum og því sé ábyrgð þeirra sem stýra skimunum mikil. Ástríður segir lækna og heilbrigðisfólk hafa áhyggjur af þessu en deilt sé um hversu hættulegar ofgreiningar geti verið.

Nokkuð hefur birst af nýjum faraldsfræðilegum greinum um þetta efni á liðnum árum en einungis er hægt að greina umfang ofgreininga í stórum faraldsfræðilegum rannsóknum þar sem gæði skimana eru metin.