Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meiri síldveiði en minna af makríl og kolmunna

01.10.2020 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: Hlynur Ársælsson
Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið leggur til meiri veiði á norsk-ís­lenskri síld á næsta ári miðað við ráðgjöf þessa árs. Hinsvegar er lagt til að minna verði veitt af mak­ríl og kol­munna.

Hafrannsóknastofnun hefur birt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um veiðar úr uppsjávarstofnum fyrir árið 2021. 

Leggur til auknar veiðar á norsk-íslenskri síld

ICES leggur til að afli ársins 2021 í norsk-íslensk vorgotssíld verði ekki meiri en 651 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 526 þúsund tonn og er því um 24% hækkun að ræða. Ráðgjöf um aukna veiði byggir ICES á því að 2016 árgangur stofnsins hafi reynst sterkur og að hann komi af meiri þunga inn í veiðarnar á næsta fiskveiðiári. Gert er ráð fyrir að heildarafli yfirstandandi árs verði um 694 þúsund tonn sem er 32% umfram ráðgjöf.

Átta prósenta samdráttur í makríl

Lagt er til að makrílafli ársins 2021 verði ekki meiri en 852 þúsund tonn. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 var 922 þúsund tonn og því er um að ræða tæplega 8% lægri ráðgjöf nú. ICES segir þetta skýrast af minnkandi hrygningarstofni og lægra mati á stofninum nú en á síðasta ári. Áætlað er að heildarafli ársins 2020 verði tæplega 1,1 milljón tonn sem er 18% umfram ráðgjöf.

Enn meiri samdráttur í kolmunna

ICES leggur til að afli næsta árs í kolmunna verði ekki meiri en 929 þúsund tonn. Ráðgjöfin fyrir yfirstandandi ár var 1,2 milljón tonn og er því um að ræða 20% lækkun frá í fyrra. Ástæðan er minnkandi hrygningarstofn sökum lítillar nýliðunar síðustu fjögur ár. Áætlað er að heildarafli ársins 2020 verði tæplega 1,5 milljón tonn sem er 27% umfram ráðgjöf.

Veiðar almennt umfram ráðgjöf ICES

Ekkert samkomulag er í gildi, milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr þessum þremur uppsjávarstofnum, um skiptingu aflahlutdeildar. Því setur hver þjóð sér aflamark, sem hefur orðið til þess að veiðar hafa verið umfram ráðgjöf ICES síðustu ár.