Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kórónuveiran nefnd 99 sinnum í fjárlagafrumvarpinu

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Eins og við mátti búast er kórónuveiran fyrirferðarmikil í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra. Hún er nefnd alls 99 sinnum í frumvarpinu sem birt var í dag. COVID19 sjúkdómurinn er nefndur 23 sinnum. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna farsóttarinnar er talinn nema 192 milljörðum.

Í frumvarpinu kemur fram að faraldurinn hafi þegar valdið miklu heilsutjóni um allan heim og viðamiklum efnahagslegum áhrifum sem ekki sjái fyrir endann á.

Aðstæðurnar sem sköpuðust í mars hafi verið fordæmalausar.

Í frumvarpinu segir að afkoma ríkissjóðs muni einkennast af eftirköstum  djúprar efnahagslægðar vegna kórónuveirufaraldursins og viðbrögðum stjórnvalda við honum. „Góð staða ríkissjóðs við upphaf farsóttarinnar hefur gefið stjórnvöldum tækifæri til að bregðast kröftuglega við afleiðingum hennar með stuðningi við fólk og fyrirtæki í vanda.“

Hagstofan gerir ráð fyrir 3,9 prósenta hagvexti á næsta ári eftir 7,6 prósent samdrátt á þessu ári.  Sú spá byggist á þeirri forsendu að ekki þurfi að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða á næsta ári og að ferðamönnum fjölgi um helming. „Þessar forsendur eru mjög óvissar,“ segir í frumvarpinu.

Þá kemur fram að ríkissjóður hafi tekið á sig þung högg vegna farsóttarinnar því tekjur hins opinbera hafi dregist saman um á annað hundrað milljarða króna. Á sama tíma hafi útgjöld stóraukist. „Raunar er útlit fyrir að áfallið verði það þungt að skuldir aukist næstu árin að óbreyttu. “

Í frumvarpinu kemur fram að fjölmargir óvissuþættir liti efnahagsútlit næsta árs. Þetta séu endurskoðun kjarasamninga, mögulegur loðnukvóti og áhrif af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV