Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Höfum betur í baráttu við skaðvaldinn

01.10.2020 - 14:29
Mynd: Skjáskot / RÚV
„Við munum hafa betur í baráttu okkar við skaðvaldinn,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti í þingsetningarræðu sinni á Alþingi í dag. Hann ræddi um baráttuna við COVID-19 faraldurinn en einnig þá vinnu sem liggur fyrir Alþingi í vetur að fjalla um stjórnarskrárbreytingar. Hann varaði bæði við því að fólk stæði gegn öllum breytingum og neitaði að fallast á einhverjar málamiðlanir til að ná breytingum fram.

Guðni vísaði til ræðu sinnar í fyrra um að ágreiningur hefði sína kosti og ekki mætti banna hann. Hann sagði að áfram yrði að beita rökum og forðast fals. Hann sagði sögu síðustu mánaða þó sögu samhugar og samstöðu. Einhugur hefði ríkt í vor og hann þyrfti að finna í haust. Forsetinn sagði samstöðu góða en hún gæti þó leitt til kyrrstöðu.

Guðni varaði bæði við því að hafna öllum breytingum og hafna öllum málamiðlum þegar hann hóf umræðu sína um stjórnarskrá. Sagnfræðingurinn á forsetastóli sagði að nær allir sem stóðu að samþykkt stjórnarskrárinnar á sínum tíma hefðu séð fyrir sér að breytingar yrðu gerðar á henni. Hann sagði ekki hægt að segja að stjórnarskrárgerðin hefði verið fullkomnuð í síðustu stóru breytingum á henni, þegar mannréttindakaflinn var tekinn upp undir lok síðustu aldar. Guðni sagði að búast mætti bæði við frumvörpum um nýja stjórnarskrá og um breytingar á stjórnarskrá til að endurspegla stjórnskipanina betur án þess að henni yrði breytt. „Mikil er hún því ætíð ábyrgð Alþingis á þessum vettvangi.“ Guðni sagði mikilvægt að þingmenn gætu tekið tillögur að stjórnarskrárbreytingum til efnislegrar umræðu, vangeta þess væri þinginu til vansa.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV