Harðari aðgerðir ráðast af getu Landspítalans

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fleiri gætu þurft að leggjast inn á Landspítalann með COVID-19 á næstunni. Í gær lágu tíu manns inni á spítalanum, þar af þrír á gjörgæsludeild. Ástandið sé viðkvæmt en harðari aðgerðir ráðist af getu Landspítalans til að takast á við veiruna.

„Nú eru komnar tvær vikur síðan síðustu aðgerðir voru settar á og við erum ekki farin að sjá neina dramatíska niðursveiflu af því. Þetta svona helst í horfinu svolítið. Þetta er mjög viðkvæmt ástand og það þarf að sjá hvað gerist frá degi til dags. En mér finnst það vera að skýrast núna að niðursveiflan er mjög hæg. Þannig að við getum ekki átt von á einhverri dramatískri niðursveiflu nema við grípum til einhverra dramatískra aðgerða,“ sagði Þórólfur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Landspítalinn var í síðustu viku færður upp á hættustig. Sjúklingum með alvarleg einkenni COVID-19 hefur fjölgað undanfarið og nokkur fjöldi heilbrigðisstarfsfólks er nú í einangrun eða sóttkví. Þórólfur segir að verið sé að skoða hvort grípa þurfi til frekari aðgerða á þessum tímapunkti. Þar eigi geta heilbrigðiskerfisins og Landspítalans til að takast á við ástandið stóran þátt.

„Ef Landspítalinn segir að hann muni ekki ráða við þessa spá sem er í gangi núna með alvarleg veikindi, sem við þá erum að sjá núna, ef að Landspítalinn segist ekki klára það þá þarf einhvern veginn að bregðast við því. Annað hvort þarf að bæta ástandið á Landspítalanum eða það þarf að  grípa til harðari aðgerða til að beygja kúrfuna hraðar niður. Þetta er bara tvennt í stöðunni. Því ef þetta verður óviðráðanlegt, eða illviðráðanlegt, fyrir Landspítalann þá kemur það líka niður á annarri þjónustu sem hann þarf að inna af hendi fyrir marga sjúklinga,“ segir Þórólfur Guðnason. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi