Ferrante er eins og borðtennismeistari gegn áhugamanni

Mynd: RÚV / RÚV

Ferrante er eins og borðtennismeistari gegn áhugamanni

01.10.2020 - 13:00

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar segja að aðdáendur Elenu Ferrante verði ekki sviknir af nýjasta verki hennar, Lygalífi fullorðinna. Þar sé unnið með efnivið unglingabóka en yfirburðir Ferrante á því sviði séu geipilegir í samanburði við aðra höfunda.

Lygalíf fullorðinna fjallar um uppvöxt ungrar stúlku, að nafni Giovanna, í efri byggðum Napólí. Lesendur kynnast Giovönnu þar sem hvörf verða í lífi hennar þegar hún kemst að því að hún á ættingja í fátækari hluta borgarinnar, nánar til tekið föðursystur sem hún hefur aldrei kynnst. Giovanna verður heltekinn af föðursysturinni, henni Vittoriu, svo hún ákveður að gera sér ferð í neðri byggðir borgarinnar til að kynnast henni. Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að bókin beri af og nefna sérstaklega persónusköpunina, sem sé framúrskarandi og sannfærandi.

„Vittoria er risapersóna, hún er heillandi en skapbráð, stór og mikil og eldfimur karakter. Hún stendur fyrir þetta sem er ekki fágað eða settlegt og passar ekki vel í þetta slétta og fellda umhverfi hennar,“ segir Sunna Dís Másdóttir. „[Ferrante] er mikill rithöfundur en hún er lesendavæn og höfðar til stórs hóps. Þetta eru alvöru bókmenntir.“

„Það er eitt sem hún gerir svo fjári vel í þessari bók, sem er svo erfitt og er oft akkilesarhæll bóka. Það er þegar þú ætlar að búa til persónu sem er svo ofboðslega góð og svo ofboðslega vitur og einhvern veginn heillar alla í kringum sig, að þá þarft þú að skrifa hana heillandi,“ segir Þorgeir Tryggvason.

Egill Helgason segir að viðtökurnar á verkum Ferrante á heimsvísu séu slíkar að hugsanlega séu Nóbelsverðlaun ekki fjarri undan.

Fyrsti þáttur haust 2020.
 Mynd: RÚV
Sunna Dís Másdóttir og Þorgeir Tryggvason ræddu við Egil Helgason um Lygalíf fullorðinna í Kiljunni á RÚV.

Lygalífi fullorðinna hefur verið lýst sem unglingasögu og segir Þorgeir að Ferrante hafi slík tök á skáldskaparforminu að aðrir höfundar blikni í samanburði. „Þetta er svolítið sami efniviður og unglingabækurnar. En munurinn á því sem hún gerir úr því og venjulegir unglingabókahöfundar – þetta er eins og munurinn á því þegar við erum að spila borðtennis og Guðmundur Stephensen er að spila borðtennis. Þetta er sami leikurinn, sami boltinn og sömu spaðarnir en þetta er bara eitthvað allt annað.“

Sunna Dís Másdóttir segir að bókin standist fyllilega þær miklu væntingar sem Ferrante hefur byggt upp eftir Napólí-fjórleikinn um æskuvinkonurnar Lilu og Lenu. „Mér finnst eitthvað mjög skemmtilegt við það að fylgja eftir sögupersónu sem þekkir alls ekki þessa hlið á Napólí, fylgja henni eftir í hverfi sem við þekkjum ágætlega, maður býst alveg við því að veifa Lilu og Lenu á næsta horni.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Lygavefur millistéttarinnar liðast í sundur

Bókmenntir

Undirliggjandi ofsi í þroskasögu Ferrante

Leiklist

Vigdís og Unnur í aðalhlutverkum Ferrante-sýningar

Sjónvarp

Nýjasta bók Ferrante á leiðinni á Netflix