Fékk afslátt af kaupverði vegna stara og músagangs

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia/Creative Commons
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á þriðjudag að kaupandi einbýlishúss í Mosfellsbæ skildi fá 659 þúsund króna afslátt af kaupverði hússins. Starahreiður í þakrennum og músagangur urðu til þess að húsið var óíbúðarhæft um skeið vegna starfa meindýraeyðis auk þess sem seljandi hafði ekki rýmt húsið fyllilega. 15 milljóna krónu kröfu kaupandans um bætur vegna raka- og mygluskemmda var hins vegar hafnað.

Bæði seljandi og kaupandi fasteignarinnar höfðuðu mál og kröfðust greiðslna hvor af öðrum. Húsið er 32 ára, byggt í Mosfellsbæ árið 1988. Núverandi eigendur keyptu húsið á 77 milljónir króna og hugðust koma því í fyrra horf. Húsinu hafði verið breytt í fjórar íbúðir, án tilskilinna leyfa og var ýmislegt komið til ára sinna.

Kaupendur héldu eftir 9,8 milljónum króna vegna galla sem þau sögðu vera á íbúðinni. Seljandinn krafðist þess að fá þessa fjárhæð greidda. Kaupandinn krafðist þess hins vegar á móti að fá endurgreiddar 15 milljónir frá seljandanum vegna galla sem væru á húsnæðinu og afnotamissis sem hefði hlotist af því.

Dómari hafnaði kröfu kaupendanna að mestu. Hann sagði að einföld skoðun hefði leitt í ljós ástand steyptra veggja, auk þess sem kaupendum hefði ekki mátt dyljast að engin niðurföll voru á húsinu og því engar jarðvatnslagnir til að taka við rigningarvatni. Dómari tók hins vegar að mestu undir kröfu seljanda og dæmdi kaupanda til að greiða 9,2 af 9,8 milljóna króna eftirstöðvum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi