Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Erfiðast að segja konunni og börnunum sannleikann

Mynd: Óskar Páll Sveinsson / Á móti straumnum

Erfiðast að segja konunni og börnunum sannleikann

01.10.2020 - 08:15

Höfundar

Veiga Grétarsdóttir tók þá ákvörðun eftir tvær sjálfsvígstilraunir og mikla erfiðaleika að hún þyrfti að skipta um stefnu í lífinu, þó það þýddi að synda á móti straumnum. Það gerði hún líka bókstaflega því fljótlega upp frá því varð hún fyrst í heiminum til að róa rangsælis í kringum landið á kajak. Ný heimildarmynd um lífs- og kajakróður Veigu er frumsýnd á RIFF á laugardag.

Veiga er trans kona en var alin upp og tekið af samfélaginu sem hún væri karlkyns. Það hlutverk lék hún líka sjálf alveg þar til hún fann að hún gæti það ekki lengur en þá hafði hún tvisvar gengið í hjónaband og eignast tvö börn. Í heimildarmyndinni Á móti straumnum eftir Óskar Pál Sveinsson kvikmyndagerðamann er sagt frá lífshlaupi Veigu, kynleiðréttingunni og ótrúlegu ferðalagi hennar en hún er fyrsta manneskjan í heiminum til að róa á kajak í kringum allt landið á móti straumnum. Myndin er hluti af RIFF og er hún frumsýnd á laugardag. Veiga kíkti í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá ferðalagi lífsins og ferðalaginu í kringum landið.

Mynd: RÚV / Menningin
Óskar Páll segir frá myndinni í Menningunni á RÚV

Fór í skotveiði og bílaviðgerðir til að vera meira eins og gaur

Þegar hún fæddist fyrir 44 árum á Ísafirði var litið á hana sem dreng og hún fékk nafnið Grétar Veigar Grétarson. Hún vissi þó strax á unglingsaldri að það var ekki alveg allt eins og það átti að vera. „Þetta endaði með því árið 2014 að ég ákvað að núna gæti ég ekki meira. Þá hóf ég þetta kynleiðréttingaferli sem nú hefur tekið hátt í fimm ár,“ segir Veiga. Og við það breyttist margt til hins betra en Veiga mætti ýmsum erfiðum áskorunum. „Það breytist allt. Líkamlega og andlega, hormónarnir. Samfélagið tekur þér líka öðruvísi,“ segir hún.

Hún var orðin 25 ára þegar hún heyrði fyrst orðið trans. Fram að því hélt hún að hún væri ein í heiminum og hún lagði sig því mikið fram við að halda sér í felum. „Ég skammaðist mín fyrir þetta. Ég hafði fiktað alla ævi við að klæða mig í kvenmannsföt og ég upplifði þá bæði vellíðan og skömm,“ segir Veiga sem reyndi á margan hátt að dulbúast sem karlmaður með því að taka að sér karlmennskuleg hlutverk. „Ég fór svolítið ýktar leiðir eins og margar trans konur gera. Ég fór í skotveiði, bílaviðgerðir og allt þetta. Þetta var allt gert til að vera mikill gaur.“

Óttaðist að börnin yrðu fyrir aðkasti

Veiga á tvö börn og segir hún að það hafi verið einn erfiðasti hlutinn af ferlinu að segja börnunum sannleikann. „En mestu fordómarnir sem ég hef upplifað í minn garð eru mínir eigin. Ég var búin að gera öðrum upp fordóma í minn garð og var hrædd um að börnin yrðu fyrir aðkasti út af mér,“ segir Veiga. Samfélagið hefur hins vegar tekið henni mjög vel en þetta var áfall í fyrstu fyrir konuna hennar, foreldrana og börnin. „Dóttir mín var reyndar mjög ung, hún var þriggja ára og gerði sér ekki grein fyrir hvað var að gerast. Sonur minn var fjórtán ára og á erfiðum aldri svo þetta var viðkvæmt fyrir hann. Foreldrar mínir voru búnir að ala upp strák í 38 ár þegar ég tek þetta skref. Allt í einu hætta þau að kalla strákinn son og kalla stelpuna dóttur.“ En hennar nánustu eru öll ánægð fyrir hönd Veigu að hafa stigið þetta mikilvæga skref. „Þau vita að ég er hamingjusöm og mér líður betur. Ég á í betri samskiptum við þau og auðveldari.“

Sagði strax já í búðinni

Sjóleiðina í kringum landið ætlaði Veiga upprunalega að róa réttsælis. Þar sem hún var stödd sem leiðsögumaður á Grænlandi á skútu sagði skipstjórinn við hana að fyrst hún hefði synt á móti straumnum alla ævi ætti hún líka að gera það í þessu tilviki. „Ég hlýddi, tók ákvörðun um að gera þetta þannig.“ Skipstjórinn hlóð upp mynd af Veigu á Instagram til að segja stuttlega frá því hver hún væri og frá ferðalaginu framundan. Og um leið og Óskar fékk fregnir af áformum Veigu hafði hann samband. „Ég var stödd í bókabúð á Ísafirði þegar hann hringir og segist vilja gera heimildarmynd,“ rifjar Veiga upp sem ekki þurfti að taka sér umhugsunarfrest. „Ég sagði strax já, í búðinni.“

Erfitt að opna sig eftir þungan róður

Ferðalagið var strembið og það tók á taka niður tjald, róa af stað og reisa aftur tjaldið á nýjum stað. En eitt það erfiðasta við ferðalagið að mati Veigu var myndin. „Það tók á þegar ég var þreytt og búin á því að tala um tilfinningaleg mál. Að tala um skilnaðinn og að taka um ferlið,“ segir Veiga. „Ég stóð mig stundum að því úti á sjó að skoða landakort og velta fyrir mér hvort það væri ekki eyja sem ég gæti stungið af á svo ég þyrfti ekki að hitta Óskar,“ bætir hún við glettin. Og stundum sagðist hún ekki vera í standi til að tala og þá var hún bara mynduð í þögn að kljást við öldurótið.

En Óskar tók viðtöl við fleiri en bara Veigu um ferlið allt og ferðalag hennar. „Hann tekur viðtal við foreldra mína, fyrrverandi konuna mína, systkini og æskuvini. Svo elti hann mig í eina aðgerð líka,“ segir Veiga sem er spennt fyrir frumsýningunni sem hún hefur beðið með óþreyju. „Mér hefur alltaf fundist eins og eitthvað vantaði en núna fyrst finnst mér ég vera að klára hringferðina. Myndin er svo stór partur af ferðinni.“ Myndin er sýnd á RIFF á laugardag klukkan 20:00 og eftir sýninguna munu þau Óskar og Veiga sitja fyrir svörum við spurningum frá áhorfendum í sal. „Ég er svolítið stressuð fyrir því,“ viðurkennir hún. „En hef verið að halda fyrirlestra og spurningarnar eru oft mjög skrautlegar.“

Veiga sem áður starfaði sem rennismiður kennir nú öðrum að róa og er með leiðsögn fyrir ferðamenn á kajak. Ásamt því kemur hún reglulega fram og heldur fyrirlestra.

Rætt var við Veigu í Mannlega þættinum á Rás 1. Allan þáttinn má hlýða á hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Kajakróður léttur miðað við lífið

Menningarefni

RIFF kemur heim í stofu