
COVID-19: Arfur Neanderdalsmannsins gerir illt verra
Rannsóknin náði til 3.199 COVID-19 sjúklinga sem lagðir voru inn á sjúkrahús. Fullyrða höfundar skýrslunnar að hún leiði í ljós að fólki með ákveðinn genaklasa, sem rakinn er allt aftur til Neanderdalsmanna, sé þrefalt hættara við því að veikjast illa og lengi af COVID-19 og ýmsum þekktum og illvígum eftirköstum sjúkdómsins en hinum, sem ekki eru með hann.
Var kannski gagnlegur áður en kostar nú þúsundir mannslífa
Um 16 prósent Evrópubúa eru með þennan genaklasa og allt að helmingur Asíubúa, segir í skýrslunni. Höfundar hennar, þeir Hugo Zeberg við Karolinska í Stokkhólmi og Svante Pääbo, við Max Planck-stofnunina í Leipzig, segja í samtali við The Guardian, að genaklasinn hafi að líkindum lifað með kynslóðunum fram á okkar dag þar sem hann hafi verið gagnlegur einhvern tímann í fyrndinni - jafnvel við baráttu gegn öðrum og annars konar sóttkveikjum.
Það sé svo ekki fyrr en núna, þegar þessi nýi ógnvaldur herjar á mannfólkið, að ókostur genaklasans komi í ljós. Pääbo, sem leiddi hóp vísindamanna sem kortlagði genamengi Neanderdalsmannsins árið 2010, segir að „gróflega áætlað“ megi ætla að þessi arfur forfeðranna hafi kostað um 100.000 mannslíf í yfirstandandi faraldri.