Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Boða stofnun nýs Bauhaus-skóla

Mynd: commons / commons

Boða stofnun nýs Bauhaus-skóla

01.10.2020 - 13:39

Höfundar

Ursula von der Leyen, nýr forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, tilkynnti nýverið áform um að stofna nýjan evrópskan Bauhaus-skóla. Skólinn er hluti af 750 milljarða evra aðgerðaráætlun sambandsins til að endurreisa hagkerfið eftir kórónuveirufaraldurinn, með menningu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Notagildið mótar formið, voru einkennisorð hins víðfræga og margrómaða Bauhaus-skóla, þar sem arkitektar, listamenn og hönnuðir mótuðu í sameiningu þá fagurfræði sem síðar var kennd við módernisma. 

Nú vill Ursula von der Leyen, nýskipaður forseti framkvæmdastjórnar  Evrópusambandsins, horfa til hugmyndafræði Bauhaus-skólans við mótun nýrrar fagurfræðilegrar stefnu 21. aldarinnar. Von der Leyen sagði í stefnuræðu sinni þann 15. september að umhverfisváin sem við stöndum frammi fyrir í dag, kalli á breyttar áherslur í framleiðslu, sem aftur kalli á nýja fagurfræði. 

Nýi skólinn verður hluti af 750 milljarða evra áætlun sambandsins í endurreisn hagkerfisins eftir kórónuveirufaraldurinn og liður í því að koma af stað umbreytingarferli í átt að sjálfbærri Evrópu. 

Skólinn á að vera gróskumiðstöð þar sem listamenn, vísindamenn og hugsuðir koma saman til að skapa eitthvað alveg nýtt. Von der Leyen vill leggja áherslu á menningu og sjálfbærni í endurreisninni eftir faraldurinn og sagði nauðsynlegt að endurhugsa hvernig við komum fram við náttúruna, hvernig við framleiðum og neytum, búum og störfum, borðum og ferðumst á milli staða. 

Það er í meira lagi áhugavert að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli leggja svo mikla áherslu á arkitektúr og hönnun, þó það geti kannski reynst erfitt að ímynda sér að hægt sé að móta fagurfræði á skipulagðan hátt. Að hægt sé að hóa saman listamönnum úr ólíkum áttum til að móta eitthvað alveg nýtt sem byggist á framtíðarsýn stjórnmálamanna. En Von der Leyen grípur slíkar yfirlýsingar að sjálfsögðu ekki úr lausu lofti. Hugmyndin um nýja evrópska Bauhaus-skólann er byggð á þörf fyrir nýjar aðferðir í framleiðslu á vægast sagt miklum umbreytingatímum, rétt eins og í tilfelli upprunalega Bauhaus-skólans sem var stofnaður árið 1919 í Weimar í Þýskalandi. 

Nánar var fjallað um Bauhaus-skólann í Víðsjá og hægt er að hlusta á umfjöllunina í heild sinni hér að ofan.