Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vilja selja álverið í Helguvík

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Forsvarsmenn álvers Norðuráls í Helguvík hafa óskað eftir því við bæjaryfirvöld á Suðurnesjum að geta selt byggingar fyrirtækisins undir annars konar starfsemi en álver.

Víkurfréttir greina frá þessu á forsíðu sinni í dag.  Til þess að salan geti farið fram þarf að gera breytingar á samningum sem gerðir voru á sínum tíma á milli Norðuráls og sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ríkið á lóðina sem álverið stendur á og þyrfti  að gera breytingar á leigusamningi við Reykjaneshöfn um afnot á henni, en Reykjaneshöfn framleigir lóðina til Norðuráls. 

Upphaflega stóð til að álverið tæki til starfa fyrir um áratug síðan, þegar fyrsta áfanga byggingarinnar átti að ljúka. Ekki gengu þau áform eftir þar sem ekki náðist að að uppfylla þá orkuþörf sem þurfti til að það tæki til starfa. Norðurál höfðaði meðal annars mál gegn HS orku árið 2015. Kerskálarnir hafa staðið ónýttir allt frá því að þeir voru reistir árið 2008. 

Bæjarráð Suðurnesjabæjar tók málið til kynningar á fundi sínum fyrr í mánuðinum og gera má ráð fyrir að það verði tekið til afgreiðslu á næstunni. Í fundargerð bæjarráðs Reykjanesbæjar er einnig bókun frá 17. september þar sem lagt er fram bréf frá Gunnari Guðlaugssyni, forstjóra Norðuráls til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ þar sem segir að í ljósi þess að ekki hafi tekist að tryggja raforku til álversins og að ekki sé útlit fyrir að breyting verði þar á, sé þess farið á leit við sveitarfélögin að þau rýmki möguleg not fyrir lóðina og húsnæðið sem þegar er búið að reisa þar fyrir annars konar starfsemi.