Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sveppi er sá eini sem kann ekki danssporin

Mynd: RÚV / RÚV

Sveppi er sá eini sem kann ekki danssporin

30.09.2020 - 08:21

Höfundar

Þeim þykir undarlegt að sjá andlit áhorfenda hulin grímu, þeim Hallgrími Ólafssyni, Sverri Þór Sverrissyni og Oddi Júlíussyni, sem leika ræningjana þrjá í uppfærslu Þjóðleikhússins á Kardemommubænum. Þó segja þeir að fátt, ef nokkuð, taki því fram að heyra krakkana hlæja og foreldrana gráta yfir ævintýrum æsku sinnar í leikhúsinu aftur, eftir margra mánaða myrkur og þögn í stóra salnum.

Allir Íslendingar þekkja ræningjana úr Kardemommubæ Thorbjörns Egners, þá Kasper, Jesper og Jónatan, uppátæki þeirra, sjarma og óþekkt. Flestir kunna jafnvel textann við vísur ræningjanna sem ýmist læðast hægt og hljótt eða eru búnir að týna öllum eigum sínum. Frægust eru lögin í flutningi þeirra Baldvins Halldórssonar, Bessa Bjarnasonar og Ævars R. Kvaran sem gerðu ræningjana ódauðlega árið 1960 og var sú uppfærsla gefin út á hljómplötu og síðar geisladisk sem spilaður hefur verið á íslenskum heimilum í áratugi.

Margir hafa síðan fetað í þau stóru fótspor og brugðið sér í hlutverk ræningjanna. Í nýjustu uppfærslunni, sem var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á laugardag, eru það félagarnir Hallgrímur Ólafsson eða Halli eins og hann er kallaður, Sverrir Þór Sverrisson sem er kallaður Sveppi og Oddur Júlíusson sem leika þjófóttu pörupiltana. Þeir komu til Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 og sögðu frá leikritinu og því sem hefur verið skemmtilegt en líka krefjandi í ferlinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er mikilvægt að fullorðnir skemmti sér líka samkvæmt þríeykinu

Niðurlægjandi þegar Halli var beðinn að kenna Sveppa sporin

Eitt það erfiðasta að Sveppa mati er að dansa, hann ruglaðist svo mikið um helgina að hann fór huldu höfði í gleðskapnum eftir sýninguna. „Ég fokkaði upp öllum dönsunum og eftir frumsýninguna forðaðist ég danshöfundinn,“ segir Sveppi. „Svo var einhver sem sagði við mig: Þú ert Sveppi og þú kemst upp með allt. Það er allt í lagi að þú klúðrir. En mig langar ekkert að klúðra.“

Sveppi vissi þó ekki hversu slæmur dansari hann væri fyrr en Hallgrími var falið það verkefni að kenna honum sporin. „Hann er líka alveg hræðilegur dansari en hann fékk skilaboð frá danskennaranum í frumsýningarpartýinu þar sem hann var beðinn um það.“ Þá kemur sér vel að hafa Odd í hópnum og hann leiðir dansinn enda lærði hann ballett og nútímadans í Listdansskólanum áður en hann fór í leiklistina. „Þá hafði ég aldrei farið í dans áður en ég fór bara í sokkabuxurnar og gerði þetta,“ segir hann. „Ég var reyndar ömurlegur miðað við krakkana sem höfðu gert þetta frá fimm ára aldri en það var auðmýkjandi og gott og gerði mikið fyrir mig.“

Þvæla að finna jarðtengingu berfættur og kafa í sjálfan sig

Þeir Oddur og Hallgrímur lærðu leiklist í Listaháskóla Íslands en Sveppi segir farir sínar ekki sléttar í þeim efnum. „Í grunnskóla var ég alltaf að fíflast og draumurinn var að tala inn á teiknimyndir. Ég sótti um og komst langt fyrst en datt út í sextán manna hópnum. Næst komst ég ekki inn og í þriðja skiptið datt ég strax út,“ segir hann. „Þá var ég bara saklaus krullóttur strákur úr Breiðholtinu og búið að brjóta niður alla mína drauma.“ Það reyndist þó lán í óláni að hann skyldi ekki komast inn því fljótlega komst hann bakdyramegin inn í bransann eins og hann segir sjálfur. Halli hins vegar flaug inn og Sveppi segir að það sé í raun ótrúlegt vegna þess hve líka sýn þeir hafi á leiklistarlífið. „Okkur finnst þetta oft óttaleg þvæla, að vera berfættur og að finna jarðtengingu eða að kafa inn í sjálfan sig. Halli er bara af Skaganum og vill bara sænskar kjötbollur.“ Halli tekur undir það enda er honum þvert um geð að kjarna sig, leika sér með rýmið eða vera berfættur. Á fyrstu æfingunni í skólanum var hann beðinn um að fara úr skónum. Honum varð ekki um sel en lét sig hafa það. „Mér fannst það algjört rugl og hef ekki þurft að leika á tánum hingað til. Ég hef leikið í fimmtán ár og fólk er alveg í skóm sko!“

„Hvað varð um gæjann sem labbaði hringinn, var það ekki einhver vitleysingur?“

Þegar Oddi var fyrst boðin rulla eftir að skólanum lauk var hann eiginlega búinn að gefa upp vonina um að hann fengi tækifæri strax. Fimm bekkjarystkini hans voru þegar komin á samning hjá stóru leikhúsunum og Oddur var byrjaður að leita á önnur mið þegar Tinna Gunnlaugsdóttir hafði samband og bauð honum hlutverk í Óvitunum í Þjóðleikhúsinu. „Mér var svo létt, ég var bara, takk ég elska þig Tinna,“ segir Oddur. Hann hefur verið fastráðinn í Þjóðleikhúsinu ásamt því að leika á skjánum og á hvíta tjaldinu síðan. Sveppi byrjaði ferilinn aftur á móti í útvarpinu þegar Sigmar Vilhjálmsson vinur hans bað hann að labba í kringum Ísland og segja reglulega frá ferðum sínum á útvarpsstöðinni Mono. Hann var ekki kominn allan hringinn þegar hann fékk fregnir af því að útvarpsstöðin væri að fara á hausinn. „Ég var á Selfossi og þurfti bara að gefa í,“ segir Sveppi sem ákvað strax að eftir þetta myndi hann segja já við öllum tækifærum sem honum byðust. „Ég vildi ekki að árið 2020 myndi fólk segja: Hvað varð aftur um gæjann sem labbaði hringinn? Var það ekki bara einhver vitleysingur?“ Hann var því feginn þegar honum bauðst að vera í 70 mínútum á Popp tíví. „Það var eiginlega bara eins og þegar einhver hringir í Odd og býður honum árssamning hjá Þjóðleikhúsinu. Bara jess, ég er kominn í sjónvarpsþátt á Popp tíví.“

Börnin skemmta sér betur þegar foreldrarnir hlæja

Þegar þremenningunum var boðið að taka að sér hlutverk ræningjanna þurftu þeir ekki að hugsa sig lengi um. Oddur segist reyndar hafa verið orðinn þreyttur eftir hundrað sýningar af Ronju og spenntur að fá stundum frí frá barnasýningum um helgar en að vera ræningi segir hann að sé slíkur heiður að hann stökk strax á tækifærið. Halli tekur undir. „Þetta er bara eitt af draumahlutverkunum, að leika ræningja,“ segir hann og bætir við að hann leggi sig fram við að gera skemmtunina bæði ánægjulega fyrir börnin og foreldrana. „Ég er með mottó að mömmum og pöbbum finnist líka skemmtilegt,“ segir Halli. Oddur tekur undir. „Börnin skemmta sér meira þegar þau sjá foreldrana hlæja.“

Á frumsýningunni táruðust líka margir foreldrarnir og segja þremenningarnir það mjög skiljanlegt. „Maður getur tárast bara við að sjá krakkana leika, þau eru svo flott,“ segir Sveppi. „Og þetta er svo litríkt og stórt að það verður bara yfirþyrmandi.“

Geta ekki beðið eftir að vakna hjá Soffíu frænku

Þótt það sé skrýtið að sjá grímur á fólki í salnum segja þeir að það skyggi ekki á gleðina og feginleikann sem augljóslega ríkir hjá gestum yfir að fá loksins aftur að koma í leikhús, sem hefur verið lokað í marga mánuði vegna samkomutakmarkana. „Það er svo gaman þegar maður heyrir aftur hlátur í salnum og skynjar gleðina frá krökkunum. Þá hugsar maður hvað þetta er ógeðslega gaman. Ég bíð bara eftir að hlaupa inn á svið og hlakka til þess þegar við vöknum hjá Soffíu frænku, eða þegar Halli fer að ljúga, það er alltaf jafn fyndið. Og bara lokasenan,“ segir Sveppi. „Þetta er svo skemmtilegt.“ Oddur og Halli eru sammála. „Maður finnur það sérstaklega á þessum tímum hvað þetta er ótrúlega þakklátt og hvað það er gaman að gera þetta,“ segir Halli að lokum.

Rætt var við þá Kasper, Jesper og Jónatan í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlusta á viðtalið við ræningjana og gamla þætti í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Ofurkraftar að fá fólk til að hlæja

Tónlist

Kardemommubærinn tekur yfir Vikuna