Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Starfsfólk Lundarskóla í skimun í dag

30.09.2020 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Um 50 starfsmenn í Lundarskóla á Akureyri fara í skimun í dag en starfsmaður þar greindist með kórónuveiruna um helgina. Ekkert skólastarf hefur verið hjá 1.-6. bekk í vikunni. Greinist enginn með COVID-19 verður hægt að hefja skólastarf aftur í fyrramálið.

Á laugardaginn kom í ljós að starfsmaður Lundarskóla á Akureyri var smitaður af kórónuveirunni. Hann mætti seinast til vinnu á miðvikudag og fann fyrir einkennum um kvöldið og ekki mætt til vinnu eftir það. Starfsmenn skólans voru sendir í sóttkví og hefur skólinn verið lokaður þessa vikuna. Unglingastarfið hefur haldist óbreytt þar sem það er í öðru húsnæði. 

Í dag er vika liðin síðan hugsanleg smit hefðu geta átt sér stað og starfsmenn skólans því á leið í skimun. Elías Gunnar Þorbjörnsson, skólastjóri, var einkennalaus og hress þegar fréttastofa náði tali af honum í dag. Hann var nýbúinn í skimun og á leið aftur í sóttkví og veit ekki til þess að einhver sé með einkenni.

„Eins og staðan er núna eru einhverjir 50 starfsmenn á leið í test á milli eitt og tvo. Vonandi er þetta bara þessi eini starfsmaður og við getum byrjað að kenna í fyrramálið,“ segir hann. 

Möguleiki á að skólastarf byrji strax í fyrramálið

Niðurstöður úr skimuninni eigi að liggja fyrir í kvöld, sýnin fari með flugvél til Reykjavíkur seinnipartinn og þar eigi að vinna hratt og örugglega úr þeim. Hann er því vongóður um að fá niðurstöður í kvöld. Verði þær allar neikvæðar ætti skólastarf að geta hafist í fyrramálið.

Hann segir alla hafa þurft að fara í sóttkví og skimun þar sem þau hafi notað sömu kaffistofuna. Spurður að því hvort skólastarfinu eða reglum verði breytt í kjölfarið segir hann það í skoðun hjá fræðslusviði Akureyrarbæjar. Verði niðurstaðan sú að enginn hafi smitast virðist fólk hins vegar hafa hugað vel að sóttvörnum.

Fréttin hefur verið uppfærð