Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stafræn tækni leysir af hólmi gamla talsímakerfið

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Á morgun hrindir Síminn af stað fyrsta áfanga í því að loka rásaskiptu talsímakerfi hér á landi. Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunarinnar, segir í samtali við fréttastofu að talsímakerfið hafi nú þegar að nánast öllu leyti vikið fyrir nýrri tækni sem byggist á háhraða stafrænum línum. Síminn stefnir að því að leggja niður gamla talsímakerfið að fullu fyrir lok næsta árs.  

„Talsímakerfi Símans var á sínum tíma rosalega flott kerfi á heimsmælikvarða. En nú er það orðið gamalt, erfitt að fá í það varahluti og það er dýrt í rekstri,“ segir Hrafnkell. Í nokkur ár hafi staðið yfir undirbúningur að því að leggja niður gamla kerfið. „Við erum í mjög góðri stöðu því það er búið að leggja nýja og öfluga fjarskiptatengingu mjög víða, til dæmis ljósleiðara. Því getur stafræn símaþjónusta leyst af hólmi gömlu þjónustuna sem byggði á hliðrænni tækni,“ segir hann.  

Tími skífusímans runninn sitt skeið 

Hrafnkell leggur áherslu á að fólk ætti ekki að finna neinn mun á þjónustunni þó tæknin breytist: „Það er ekki verið að loka fyrir talsíma heldur bara þessa gömlu þjónustu, “ segir hann. Aðspurður hvort einhverjar gamlar símategundir gætu hætt að virka þegar ný tækni tekur við segir hann reyndar að allra elstu símarnir virki ekki með stafrænni tækni, til dæmis gömlu skífusímarnir.  

Enginn á að verða sambandslaus

„Enginn á að vera sambandslaus eftir að gamla talsímakerfinu verður lokað. Það er í raun ótrúlegt að við séum komin þangað að það sé hægt að taka þetta skref, meira að segja strjálbýli er komið með þessa fínu þjónustu,“ segir Hrafnkell. Hann segir að Póst- og fjarskiptastofnunin fylgist vel með framkvæmdinni, símasamband sé mikilvægt öryggisatriði og því skipti miklu máli að ganga úr skugga um að enginn verði sambandslaus. 

Í fyrsta áfanga fer fram þjónustuflutningur á þeim stöðum á landinu þar sem er nær öruggt að nú þegar hafi stafræn tækni tekið við. „Í flestum tilvikum hefur þjónustuflutningur löngu átt sér stað. Síminn hefur greint þetta mjög ítarlega,“ segir Hrafnkell. Ef ljósleiðaralækni er ekki til staðar nú þegar þá grípur farnetstæknin, 3G og 4G, símaþjónustuna. Í örfáum tilvikum í seinni áföngum gæti talsímaþjónusta dottið út en Póst- og fjarskiptastofnunin hefur útnefnt Neyðarlínuna ohf. sem alþjónustuveitanda til að útvega fjarskiptatengingu fyrir símaþjónustu og nothæfa internetþjónustu í þeim tilvikum.