Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skólastarf í Lundarskóla hefst á ný

30.09.2020 - 22:50
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Enginn þeirra fimmtíu starfsmanna Lundarskóla sem voru skimaðir í dag reyndist smitaður af COVID-19. Í tilkynningu sem Elías Gunnar Þorbjörnsson skólastjóri sendi foreldrum nemenda í dag kemur fram að skólastarf hefjist aftur í fyrramálið, að morgni fimmtudags.

Skólastarfið í 1. - 6. bekk í Lundarskóla hefur legið niðri alla vikuna eftir að einn starfsmaður skólans greindist með kórónuveiruna um helgina og starfsfólkið var sent í sóttkví. Skólastarfið í unglingadeild Lundarskóla hefur ekki raskast, enda er það í öðru húsnæði en yngri deildirnar. 

„Skóli mun vera í fyrramálið við Dalsbraut og hlakka ég til að sjá bæði nemendur og starfsfólk, við þurfum þó öll að muna eftir persónulegum sóttvörnum og passa okkur næstu vikurnar svo að við losnum við þennan vágest sem fyrst. Ég vil þakka ykkur öllum þolinmæðina og æðruleysið síðustu daga,“ segir í tölvupósti skólastjórans. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV