Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Opinber fjárfesting ekki í samræmi við yfirlýsingar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
„Þrátt fyrir margboðað fjárfestingarátak ríkissjóðs sýndu fyrstu niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árið 2020 rúmlega 14 prósenta samdrátt í opinberri fjárfestingu á milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 á verðlagi hvers árs.“ Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem segir að vonandi hilli undir að stór áform ríkisstjórnarinnar um opinberar fjárfestingar líti dagsins ljós.

Í Hagsjánni kemur fram að tölurnar skjóti skökku við enda hafi fjárlög og aukafjárlög gert ráð fyrir aukningu í fjárfestingu upp á 37 prósent frá síðasta ári. 

Tölur á skjön við margboðað fjárfestingarátak

Fjárfesting ríkissjóðs hefur dregist saman um 17,1 prósent milli fyrri árshelminga ársins 2019 og 2020 og fjárfesting sveitarfélaganna um 9 prósent. Í Hagsjánni segir að tölurnar séu á skjön við margboðað fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar, t.d. í tengslum við endurskoðun fjármálastefnu vorið 2019, og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar nú síðla vetrar um aðgerðir til að stemma stigu við efnahagslegum áhrifum faraldursins.

Einnig er vísað til þess að í fjáraukalögum var ákveðið að auka fjárfestingar ríkissjóðs um 19 ma.kr. á árinu 2020 ofan á 7 ma.kr viðbót sem hafði verið samþykkt í fjárlögum ársins. „Fjárfesting ríkissjóðs var um 67 ma.kr. á árinu 2019 og með fjárlögum og fjáraukalögum hefur verið ákveðin aukning upp á 25 ma.kr. frá síðasta ári, eða 37 prósent. Og nú er einu sinni enn verið að boða fjárfestingarátak í tengslum við nýja fjármálaáætlun sem verður lögð fram í þingbyrjun,“ segir í Hagsjánni. 

Ljóst að ekki var staðið við áform

Í Hagsjánni er sérstaklega tekið fram að oft verði tölur um opinbera fjárfestingu fyrir áhrifum af óreglulegum liðum. Dæmi um það hafi verið þegar ríkissjóður tók við Hvalfjarðargöngum í lok árs 2018 og þegar Vestmannaeyjaferja var gjaldfærð á 2. ársfjórðungi 2019.

Þrátt fyrir það sé nú nokkuð ljóst að áform ríkisstjórnarinnar um stóraukna fjárfestingu hafi ekki orðið að veruleika. Opinberar tölur um þjóðhagsreikninga, og tölur um fjármál hins opinbera, endurspegli það.