Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Leyniskjöl afhjúpuð - hægt að skoða á vef safnsins

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Leyniskjöl frá upphafi síðari heimstyrjaldar eru nú opin öllum á vef Þjóðskjalasafnsins. Í einu segir að íslenska ríkið vilji ekki veita gyðingum dvalarleyfi og í öðru að hér séu stundaðar njósnir fyrir Þjóðverja. Skjölin eru á milli fimm og tíu þúsund sem birt eru nú og eru úr utanríkisráðuneytinu.

Algert leyndarmál heitir njósnabréfið

Það er ekki ónýtt að fá að skoða bréf með fyrirsögninni Algert leyndarmál frá Sveini Björnssyni sendiherra í Kaupmannahöfn til forsætisráðherra fyrir 80 árum eða annað frá Sveini sem byrjar á Bréf þetta er um njósnir. Nú getur hver sem er skoðað þessi bréf skönnuð á vef Þjóðskjalasafnins. 

„Þar fá menn veður af því að það séu sendar upplýsingar til Þýskalands frá Íslandi og eru svona að rekja það hvaðan það kemur. Og ég held nú að það hafi aðallega verið rakið til Gerlach þegar að upp var staðið,“ segir Unnar Rafn Invarsson fagstjóri miðlunar Þjóðskjalasafns. 

Þarna á hann við þýska ræðismanninn Werner Gerlach en það var eitt af fyrstu verkum breska hernámsliðsins í maí 1940 að handtaka hann á Túngötu 18 og gera öll skjöl ræðismannsskrifstofunnar upptæk. Gerlach var afar iðinn við að senda athugasemdir til stjórnvalda eins og sjá má í safninu. 

Í stríðinu margfölduðust skjöl stjórnvalda.

„Stríðið er svo stór viðburður. Þetta er hins vegar mjög mikilvægt skjalasafn því þetta er utanríkisráðuneytið og þeir sjá raunverulega um þessi samskipti milli hernámsliðsins og Íslendinga.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Ekki kemur fram hver ritaði skeytið sem synjar um dvalarleyfi.

Ríkisstjórnin er mótfallin að veita gyðingum dvalarleyfi

Ekki má birta viðkvæm skjöl fyrr en þau eru 80 ára en fræðimenn hafa getað fengið aðgang að þeim.  

Fyrir stríð og í stríðinu sóttu margir gyðingar um dvalarleyfi hér. 

„Og því var nú tekið alla vegana, sennilega í flestum tilfellum illa. Það eru dæmi um skjöl þar sem er beinlínis sagt að Íslendingar taki ekki við Gyðingum principielt eins og er sagt í skjölunum.“

Í einu símskeytinu segir: Dvalarleyfi þýskum gyðingahjónum neitað þar eð ríkisstjórnin prinsipélt mótfallin að veita þýskum gyðingum dvalarleyfi á Íslandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV

Flóttaleiðir ef loftárás gerð á Reykjavík

Mikið er af skjölum um Reykjavíkurflugvöll og óttaðist fólk að hætta á loftárásum á Reykjavík myndi aukast með honum. 

„Það voru já teiknaðar upp flóttaleiðir. Það voru byggð loftvarnarbyrgi. Það var reynt að minnka áhættuna á að hafa herlið í Reykjavík.“

Rauðlituðu flóttaleiðirnar á Reykjavíkurkortinu eru fyrir herliðið en grænu leiðirnar máttu Íslendingar fara. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Hér kvartar Gunnar Gunnarsson rithöfundur yfir því að hermenn hafi skoðað hús sín á Bessastöðum.

Fólk fær tækifæri til að kynnast sögunni á annan hátt

Í sumar skráðu tveir háskólanemar ítarlega skjöl frá utanríkisráðuneytinu og hluti þeirra var skannaður. Farið er inn á skjalaskrá á vef Þjóðskjalasafnsins og hernámið valið og líka er hægt að slá inn leitarorð. 

„Það er verið að og búið að skanna dálítið brot af þessum gögnum, mjög lítið. Það eru milli fimm og tíu þúsund skjöl sem verða birt núna.“

Á næstu mánuðum og misserum er stefnt að því að birta miklu fleiri skjöl. 

„Þessi skjöl munu ekki breyta Íslandssögunni í sjálfu sér en þarna eru hins vegar upplýsingar sem breyta mörgum litlum sögum og gefa kannski fólki kost á að kynnast sögunni með öðrum hætti en í venjulegu sagnfræðiriti.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Unnar Rafn Ingvarsson.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV