Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Isavia tapaði rúmum 7,6 milljörðum

30.09.2020 - 16:09
Keflavíkurflugvöllur. Mynd: ISAVIA
 Mynd: ISAVIA/Oddgeir - ISAVIA
Isavia var rekið með 7,6 milljarða króna tapi á fyrri hluta ársins. Á sama tíma fyrir ári síðan tapaði fyrirtækið 2,5 milljörðum króna. Forsvarsmenn fyrirtækisins gera ráð fyrir að Isavia geti tapað þrettán til fjórtán milljörðum króna á þessu ári og að höggið af kórónuveirufaraldrinum kosti fyrirtækið fimmtán til sextán milljarða.

Tekjur þess hluta Isavia sem sinnir rekstri Keflavíkurflugvallar drógust saman um 97 prósent á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Tekjur allrar samstæðunnar drógust saman um 77 prósent á þeim tíma.

Tekjur Isavia á fyrri hluta árs voru 9,6 milljörðum króna minni en á sama tíma í fyrra. Það er 53 prósenta samdráttur. 

Í fréttatilkynningu Isavia vegna árshlutauppgjörsins segir að aðgerðir sem ráðist var í á fyrri hluta árs fari að hafa áhrif á seinni hluta árs. 

Fjölda fólks hefur verið sagt upp störfum hjá Isavia og margir eru í minna starfshlutfalli en áður.