Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Guðjón kláraði meistaraverkið rétt áður en hann lést

Mynd: RÚV / RÚV

Guðjón kláraði meistaraverkið rétt áður en hann lést

30.09.2020 - 13:39

Höfundar

„Hann fórnaði síðustu mánuðum lífsins í að klára þessa byggingu svo hún yrði fullkomin þegar hún var vígð um vorið,“ segir Pétur H. Ármannsson um Guðjón Samúlesson arkitekt og síðasta verk hans, Þjóðleikhúsið. Pétur, sem sendi nýverið frá sér bókina Guðjón Samúelsson húsameistari, segir frá manninum og bókinni í Kiljunni í kvöld

Fáir ef nokkur Íslendingur hefur haft eins mikil áhrif á íslenskan arkitektúr og Guðjón Samúelsson sem gegndi hlutverki húsameistara ríkisins frá 1920 til dauðadags. Framlag Guðjóns til húsagerðar Íslendinga er einstakt og eftir hann standa flestar af rómuðustu húsum íslenskrar byggingarlistar. Þar má sem dæmi nefna Þjóðleikhúsið, Hallgrímskirkju, Hótel Borg, Akureyrarkirkju, Kristskirkju, Aðalbyggingu Landspítalans og Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Í bókinni Guðjón Samúelsson húsameistari skoðar Pétur H. Ármannsson verk og hugmyndir Guðjóns en margar af hans þekktustu byggingum eiga afmæli á þessu ári. Lítið hefur þó farið því vegna ástandsins í samfélaginu. „En það er gaman að hafa náð að koma bókinni út á þessum tímamótum,“ segir Pétur í viðtali við Egil Helgason í fyrstu Kilju haustsins sem er á dagskrá RÚV í kvöld. Bókin hefur að geyma myndir af byggingum Guðjóns, texta Péturs og teikningar eftir Guðjón. „Sumar þessar byggingar eins og Háskólinn, Þjóðleikhúsið, Hallgrímskirkja og Akureyrarkirkja, þetta eru byggingar, stofnanir og staðir sem þjóðin þekkir og eru eins og náttúrufyrirbrigði.“

Mynd með færslu
 Mynd: Pétur H. Ármannsson - Guðjón Samúelsson
Almenningur elskar Guðjón í dag en hann var umdeildur á sínum tíma

Dýrkeypt vinátta Guðjóns og Jónasar frá Hriflu

Það þekkja flestir nafnið og húsin en ákveðin dulúð ríkir í kringum manninn sjálfan enda hélt hann sig mikið út af fyrir sig. „Hann átti fáa en góða vini og blandaðist inn í pólitík þessa tíma,“ segir Pétur. „Vinátta hans og Jónasar frá Hriflu hafði mikil áhrif á hans líf.“ En það var ekki endilega tekið út með sældinni að vera vinur Jónasar og þjóðþekktur einstaklingur. „Andstæðingar Jónasar sáu færi í að gera Guðjón að skotspóni sínum. Það var allt tínt til sem fór aflaga í hans byggingum,“ segir Pétur. „Ef okkur finnst illa talað um byggingar í dag ættum við að rifja upp hvernig talað var um byggingar Guðjóns á sínum tíma.“ Fáir myndu þó hallmæla byggingum Guðjóns í dag enda eiga þær stórt pláss í þjóðarsálinni. „Almenningur elskar hann og tíminn hefur unnið með honum.“

Lést fimm dögum eftir vígslu Þjóðleikhússins

Pétur segir að Þjóðleikhúsið sé í raun fullkomnasta bygging Guðjóns. Hann lagði lokahönd á meistaverkið deyjandi úr krabbameini. „Hann fórnaði síðustu mánuðum lífsins í að klára þessa byggingu svo hún yrði fullkomin þegar hún var vígð um vorið. Því miður náði hann ekki að vera viðstaddur vígsluna. Hann dó fimm dögum síðar en heyrði óminn af vígslunni í útvarpinu.“

Nánar er rætt við Pétur H. Ármannsson í Kiljunni sem er á dagskrá á RÚV klukkan 20.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ótrúlegt ævistarf saman komið á einum stað

Myndlist

Hvernig komst einn maður yfir þetta allt?

Hönnun

Lykilatriði að láta Sundhöll Guðjóns njóta sín