Framíköll, dónaskapur og harkaleg orðaskipti

epa08707311 United States President Donald Trump (R) and Democratic presidential candidate Joe Biden (L) take part in the first 2020 United States presidential debate at Case Western Reserve University and Cleveland Clinic in Cleveland, Ohio, USA, 29 September 2020. The USA presidential election is slated for 03 November 2020.  EPA-EFE/OLIVIER DOULIERY / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Þung orð féllu í fyrstu kappræðum þeirra Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, og mótherja hans í forsetakosningunum í nóvember, Joes Bidens. Biden kallaði forsetann m.a. lygara, trúð, rasista og kjölturakka Pútíns Rússlandsforseta. Trump ítrekaði fullyrðingar sínar um yfirvofandi kosningasvik vegna metþátttöku í póstkosningum, sakaði Demókrata um að hafa njósnað um hann og reynt valdarán með fulltingi þingsins, og fullyrti að sonur Bidens hefði þegið fúlgur fjár af borgarstjórafrúnni í Moskvu.

Lágt plan, framíköll og dónaskapur

Álitsgjafar vestra voru margir á því að umræðurnar hafi verið á afar lágu plani og gagnrýndu sérstaklega hvað forsetinn var iðinn við að grípa fram í fyrir mótherja sínum og stjórnandinn, Chris Wallace, fréttamaður á Fox News, óduglegur við að stöðva framíköllin. Svo vasklega gekk forsetinn fram við þessa iðju að Biden brast að lokum þolinmæðin og bað hann að þegja.

Hér má sjá samantekt CNBC á kappræðunum

Biden var þó langt í frá saklaus af framíköllum, og ekki dró hann af sér við persónulegar árásir fremur en mótherji hans. Báðir fóru hörðum og ófögrum orðum um hinn og hélt Biden því meðal annars fram að Trump væri versti forsetinn í sögu Bandaríkjanna. 

Hæstiréttur og skipan Amyar Coney Barrets

Fyrsta umræðuefni kvöldsins var hæstiréttur Bandaríkjanna og sú ætlun Trumps að skipa hina íhaldssömu Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara fyrir kosningar, þótt hefð sé fyrir því að eftirláta nýkjörnum forseta að gera slíkt við sambærilegar aðstæður. Trump gaf lítið fyrir gagnrýni á þessa ákvörðun sína. „Við unnum kosningarnar, svo við höfum rétt til að tilnefna hana,“ sagði forsetinn.

Ekki er útilokað að það falli á endanum hæstarétti í skaut að úrskurða um möguleg vafamál vegna kosningaúrslitanna. Biden lagði þó aðaláherslu á framtíð sjúkratryggingakerfisins sem kennt er við Barrack Obama. Sagði hann 20 milljónir Bandaríkjamanna eiga á hættu að missa heilbrigðistryggingu sína ef Coney Barrett verður skipuð og meirihluti íhaldssamra dómara í hópi hæstarréttar styrkist þannig enn frekar.

Frá hæstarétti í heilbrigðismálin

Í beinu framhaldi minnti Biden á að yfir 200.000 Bandaríkjamenn hefðu dáið úr COVID-19 og sagði að réttur kvenna til þungunarrofs væri líka á kjörseðlinum – því með skipan Coney Barrett væri raunveruleg hætta á að þær yrðu sviptar þeim rétti.

Trump svaraði með því að saka Biden um að vilja koma á sósíalísku tryggingakerfi og banna sjúkratryggingar einkafyrirtækja. Sjálfur sagðist forsetinn ætla að beita sér fyrir samvinnu ríkis og einkageirans, setja stóru lyfjafyrirtækjunum stólinn fyrir dyrnar og tryggja bandarísku þjóðinni aðgang að ódýrum lyfjum.

Tekist á um COVID-19

Báðir gripu ítrekað fram hvor fyrir hinum og sagði Biden að allir vissu að forsetinn væri lygari.  Trump fullyrti að hann og ríkisstjórn hans hefðu unnið þrekvirki í baráttunni við COVID-19, en fjölmiðlar vilji bara ekki fjalla um það. Þeir Biden og Obama hefðu hins vegar farið illa að ráði sínu þegar svínaflensan geisaði á sínum tíma.

Hér má sjá samantekt Washington Post um kappræðurnar

Biden svaraði því til að 14.000 hefðu dáið úr svínaflensu, en 200.000 úr COVID-19 og ljóst að þúsundir til viðbótar eigi eftir að falla í valinn. Forsetinn sagði þá bóluefni væntanlegt innan skamms og sakaði enn Kínverja um að hafa skapað veiruna. Biden minnti þá á að forsetinn hefði haldið því fram í vor að farsóttin yrði gengin hjá í apríllok, og síðar að hún myndi einfaldega hverfa þegar hlýna tæki í veðri. Það hefði ekki gengið eftir.

Efnahagsmálin fyrr og nú

Þá var tekist á um efnahagsmálin og höfðu frambjóðendurnir að vonum afar ólíka sýn á það, hvernig viðskilnaður Obamastjórnarinnar var og hvernig Trumpstjórninni hefði tekist til í framhaldinu. Trump sakaði Biden um að vilja halda öllu lokuðu áfram og setja með því efnahag landsins endanlega á hausinn, en Biden sagði enga leið að koma efnahagslífinu í samt lag fyrr en búið væri að koma böndum á faraldurinn.

Skattamál forsetans

Skattamál forsetans voru næsta mál á dagskrá. Trump stóð fast á því að frétt New York Times um að hann hefði aðeins greitt 750 Bandaríkjadali í tekjuskatt 2016 væri uppspuni og sagðist hafa greitt milljónir í skatta. Aðspurður, hvers vegna hann birti ekki framtöl sín, eins og forverar hans hafa gert síðustu áratugi, hélt hann því enn fram að það gengi ekki þar sem framtalsgögnin væru í kæruferli, þótt skattayfirvöld hafi ítrekað bent á að ekkert í því ferli komi í veg fyrir birtingu gagnanna.

Persónuleg skot og árásir

Þegar hér var komið sögu tók forsetinn að vega að fjölskyldu Bidens, einkum syninum Hunter, sem hann sagði hafa verið rekinn úr hernum með skömm vegna fíkniefnaneyslu og hagnast með vafasömum hætti í Úkraínu, Rússlandi og víðar eftir að Biden varð varaforseti. Sagði hann meðal annars að Hunter Biden hefði þegið 3.5 milljónir Bandaríkjadala af eiginkonu borgarstjóra Moskvu.

Biden vísaði öllum ásökunum á bug. Hann sagði son sinn vissulega hafa lent í því, eins og svo fjölmargir Bandaríkjamenn, að verða háður fíkniefnum. Hann hefði hins vegar komið sér út úr þeim vítahring. Biden varð lítt ágengt með málsvörn sonar síns vegna mikilla framíkalla forsetans, og bað Wallace Trump um að stilla sig. Það var í þessari orðasennu, sem Biden kallaði forsetann trúð. „Það er erfitt að koma að orði þar sem þessi trúður er annars vegar,“ sagði Biden. Þá sagði hann Trump eins og kjölturakka Pútíns Rússlandsforseta; sjálfur hygðist hann hins vegar ekki láta Pútín komast upp með sinn yfirgang gagnvart Bandaríkjunum og öðrum þjóðum, ef hann yrði kjörinn forseti. 

Mótmæli, rasismi og öfgahreyfingar

Næsta mál á dagskrá voru hin hörðu og útbreiddu mótmæli sem geisað hafa vegna lögregluofbeldis í garð svartra Bandaríkjamanna og kerfisbundins rasisma. Trump fullyrti að enginn forseti hefði gert jafn mikið fyrir svarta Bandaríkjamenn og hann sjálfur síðan Abraham Lincoln afnam þrælahald, en Biden gaf lítið fyrir þá söguskoðun. Aðspurður, hvers vegna hann hefði aflagt námskeið fyrir ríkisstarfsmenn – þar á meðal lögreglumenn – um málefni minnihlutahópa, sagði Trump að námskeiðin gerðu minna gagn en ógagn. Þau „kenndu fólki að hata [Bandaríkin]“ og væru hvort tveggja róttæk og rasísk.

Í framhaldinu sagði hann að íbúðahverfi bandarískra borga og bæja yrðu ekki lengur örugg svæði, ef Biden yrði kjörinn forseti. Sagði hann Biden litla áherslu leggja á lög og reglu, þar sem hann væri hræddur við vinstri róttæklinga í Demókrataflokknum og annars staðar.  

Biden sakaði forsetann á móti um að hella stöðugt olíu á ófriðarbálið í borgum landsins, ekki síst með því að neita að fordæma hægri-öfgamenn og hreyfingar sem halda meintum yfirburðum hvítra á lofti.

Trump vék sér undan því að fordæma hægri-öfgamenn

Wallace spurði forsetann hvort hann væri reiðubúinn að fordæma hægri-öfgahreyfingarnar sem hafa látið mjög til sín taka í tengslum við mótmæli undir merkjum Black Lives Matter. Sagðist forsetinn alveg geta hugsað sér að gera það.

Hann gerði það þó ekki, heldur lét sér nægja að hvetja eina slíka hreyfingu, öfgaþjóðernissinnahreyfinguna Proud Boys, til að stíga til baka og láta af bardögum. Í framhaldinu hélt hann því fram að meginhættan – og öll mestu ofbeldisverkin – væru runnin undan rifjum vinstrafólks og andfasistahreyfingarinnar Antifa.

Loftslagsmál til umræðu í fyrsta sinn i 20 ár

Loftslagsmálin komu til umræðu þegar farið var að síga verulega á seinni hlutann. Eins undarlega og það kann að hljóma, þá mun þetta vera í fyrsta sinn í 20 ár sem þau eru nefnd til sögunnar í kappræðum forsetaframbjóðenda vestra.

Byrjað var á að ræða skógareldana í Kaliforníu sem geisað hafa vikum saman, kostað fjölda mannslífa, logað á stærri svæðum en sögur fara af og mengað loftið langt út fyrir ríkismörk Kaliforníu. Trump endurtók fullyrðingar sínar um að meginorsök eldanna væri lélegur skógarbúskapur Kaliforníumanna. Þegar Wallace gekk á hann viðurkenndi hann að hlýnun Jarðar gæti líka haft eitthvað að segja og að maðurinn gæti mögulega átt einhvern þátt í þeirri hlýnun, en þar við sat.

Biden hét því að halda Bandaríkjunum inni í Parísarsáttmálanum, nái hann kjöri. Það sagði forsetinn hina mestu firru, enda væri sá sáttmáli handónýtur og sérlega óhagstæður Bandaríkjunum. Forsetinn sagði áætlanir Bidens í umhverfismálum munu kosta milljarðatugi Bandaríkjadala og aragrúa  Bandaríkjamanna atvinnuna, en Biden hélt því fram að þær myndu þvert á móti skapa milljónir vel launaðra starfa og skapa ríkinu miklar tekjur.

Trump segir kosningasvik þegar byrjuð

Kosningarnar sjálfar voru svo síðasta málið á dagskrá kappræðnanna. Wallace benti á að metþátttaka væri í póstkosningum og milljónir atkvæðaseðla þegar á leið til kjósenda. Bað hann frambjóðendur um álit á þessari stöðu.

Biden svaraði því til að fjölmargir áreiðanlegir sérfræðingar hefðu sýnt fram á að engin ástæða væri til að óttast að póstkosningar væru ótryggar eða ýttu undir kosningasvindl. Mikilvægast væri að kosningarnar færu vel og skipulega fram, þannig að sem allra flestir hefðu tækifæri til að nýta kosningaréttinn. Trump ynni hins vegar að því að hindra fólk í að kjósa, sagði Biden, og hvatti almenning ítrekað til að fara á kjörstað og kjósa.

Forsetinn hélt því aftur á móti fram að Demókratar hefðu njósnað hann og kosningateymi hans og hefðu reynt að koma honum frá völdum með óvönduðum meðulum. Þá hélt hann því fram að þeir Biden og Obama hafi ekki komið fram af heilindum við valdaskiptin 2017.

Um póstkosningarnar sagði forsetinn að kosningasvik væru nú þegar hafin af krafti og að eitt mesta kosningasvindl sögunnar sé mögulega í uppsiglingu. Aðspurðir, hvort þeir hyggist sætta sig við úrslitin og hvetja stuðningsfólk sitt til að gera hið sama svaraði Biden því játandi en Trump svaraði spurningunni ekki með með afdráttarlausum hætti heldur lýsti enn áhyggjum sínum af svindli, hvatti stuðningsfólk sitt til árvekni á kjörstað og sagðist ekki munu viðurkenna úrslitin, fengi hann veður af kosningasvindli.

Fáir sögðust hafa haft gagn af kappræðunum

Könnun á vegum CBS-fréttastöðvarinnar eftir kappræðurnar leiddi í ljós að 48 prósent þeirra sem svöruðu töldu Biden hafa staðið sig betur en 41 prósent sagði Trump hafa vinninginn. Mikill meirihluti svarenda sagðist hins vegar hafa upplifað pirring og gremju við að fylgjast með kappræðunum og aðeins 17 prósent töldu þær hafa verið upplýsandi og gagnlegar.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi