Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flugmenn tóku margir persónulega þátt í útboðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Icelandair Group sagði í gær upp 88 manns og taka uppsagnirnar gildi fyrsta október. Þar af voru 68 flugmenn. Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að uppsagnirnar hafi komið félagsmönnum í opna skjöldu eftir vel heppnað hlutafjárútboð, sem margir þeirra hafi tekið þátt í.

Áður en faraldurinn braust út í vor störfuðu tæplega sex hundruð flugmenn hjá Icelandair. Í dag eru 139 flugmenn með samning við fyrirtækið en á fimmtudaginn verða þeir 71. 

Sjá einnig: Flugmenn reiðubúnir að skerða eigin kjör

„Þetta eru náttúrulega bara þungar fréttir og koma illa við okkur. Okkur finnst svona í ljósi þess að flugmenn hafa nú lagt mest til í þessari fjárhagslegu endurskipulagningu félagsins að þá hefði nú verið rétt að nýta tímann aðens betur,“ segir Jón Þór Þorvaldsson formaður Félags Íslenskra atvinnuflugmanna.

Jón Þór bendir á að Icelandair þurfi að þjálfa flugmenn til að fljúga nýjum Boeing MAX vélum sem væntanlegar eru til félagsins á næstu mánuðum. Að hans mati hefði verið betra að nýta tímann í slíka þjálfun svo flugmennirnir yrðu tilbúnir þegar kallið kæmi. 

Segir flugmenn hafa stutt rækilega við bakið á félaginu

Icelandair sótti sér fyrr í þessum mánuði 23 milljarða króna í hlutafjárútboði, auk þess sem Alþingi samþykkti að veita félaginu ríkisábyrgð á lánalínu. Félagið hefur auk þess fengið um átta milljarða króna í uppsagnarstyrki og var það fyrirtæki sem fékk mest úr hlutabótaleið stjórnvalda. 

Jón Þór segir flugmenn hafa stutt við bakið á félaginu í þessu ferli og að uppsagnirnar hafi komið fólki í opna skjöldu. 

„Já við verðum nú að segja það. Vegna þess að það var búið að skera mikið niður og segja upp 75 prósent af öllum flugmönnum hjá félaginu. Hitt er svo annað mál að auðvitað stöndum við með félaginu okkar. Við höfum tekið þátt í þessu hlutafjárútboði, bæði gerði lífeyrissjóðurinn okkar það og menn gerðu það prívat og persónulega líka,“ segir hann.

Buðust til að lækka laun sín og gefa eftir réttindi

Í maí buðust flugmenn Icelandair hafa til að lækka laun sín og gefa eftir ýmis réttindi til að bæta samkeppnisstöðu flugfélagsins. 

„Við opnuðum náttúrulega kjarasamning sem var lokaður og tókum verulega á með félaginu í að endurskipuleggja félagið. Eftir að við lukum svo þessu mjög svo vel heppnaða hlutafjárútboði gengum við enn lengra og buðumst til þess að hliðra til orlofi. Og enn fremur hvöttum við til þess að tíminn yrði notaður í að þjálfa flugmenn fyrir vorið svo við værum tilbúnir í öfluga viðspyrnu. En því miður þá deila ekki allir þessari sýn með okkur og þetta varð niðurstaðan,“ segir Jón Þór Þorvaldsson.