Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fleiri hópuppsagnir – hátt í 300 sagt upp um mánaðamót

30.09.2020 - 16:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átta tilkynningar hafa borist Vinnumálastofnun fyrir þessi mánaðamót um hópuppsagnir. 293 hefur verið sagt upp í hópuppsögnum fyrir þessi mánaðamót. Flestar eru uppsagnirnar í ferðaþjónustunni eða hjá sjö af átta fyrirtækjum.

Þetta staðfestir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunnar í samtali við fréttastofu. Hún á ekki von á því að fá fleiri tilkynningar í dag, en útilokar það þó ekki. 

Fyrr í dag var greint frá því að 180 manns hefði verið sagt upp í sex hópuppsögnum, en samkvæmt nýjum tölum hefur hópuppsögnum fjölgað um tvær og ná þær til rúmlega 110 manns. Heldur fleiri hefur verið sagt upp í hópuppsögnum fyrir þessi mánaðamót miðað við seinustu mánaðamót þegar 284 misstu vinnuna í hópuppsögnum, en mánaðamótin þar áður var 381 starfsmanni sagt upp í hópuppsögnum hjá fjórum fyrirtækjum þar af var öllum 304 blaðberum Póstdreifingar sagt upp. Rúmlega 4.200 manns var sagt upp í hópuppsögnum í vor, langflestum í ferðaþjónustu.

Unnur segir að því miður komi þetta ekki á óvart. Til viðbótar við óvenjulegar aðstæður í efnahagslífinu bætist nú við árstíðabundnar uppsagnir.  Vinnumálastofnun spái allt að 10% atvinnuleysi í september. „Bráðabirgðartölur eru 8,7% atvinnuleysi í september og 0,9-1% í minnkuðu starfshlutfalli þannig þetta er á milli 9-10%.“ sagði Unnur.