Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Festa kemur Eimskipi til varnar 

30.09.2020 - 21:31
Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð, segist hafa átt fund með forsvarsmönnum Eimskips í dag vegna sölu fyrirtækisins á tveimur skipum í niðurrif á Indlandi. Hún segir að Festa líti málið alvarlegum augum en að Eimskip endurskoði nú samskipti sín við birgja og gangi úr skugga um að mál á borð við þetta komi aldrei fyrir aftur. Hrund var gestur í Kastljósi kvöldsins. 

Segir félaginu umhugað um að bæta ráð sitt

Aðspurð segir Hrund að vissulega sé inni í myndinni að hugleiða þann kost að Eimskip missi aðild að Festu vegna málsins. Hún kemur Eimskipi þó til varnar og segir félagið hafa gert „rosalega marga flotta hluti þegar kemur að sjálfbærri þróun og samfélagsábyrgð“. Félaginu sé mjög umhugað um að komast að því „af hverju þetta gerðist og hverju þau geta breytt til að þetta komi ekki fyrir aftur“.

„Eimskip er að skoða þetta á dýptina og ígrunda hvað gerðist og af hverju. Við vitum öll að þetta er rosalega slæmt og bara svartur blettur á alþjóðlegu viðskiptalífi. Þannig að næsta skref hjá þeim, eftir okkar samtal, er að fara yfir þeirra stefnu aftur og reka sig aftur í virðiskeðjuna og samskipti við birgja og endurskoða hvernig þeim samskiptum er háttað og breyta til svo þetta komi aldrei fyrir aftur,“ segir hún.   

Festa metur ekki fyrirtækin 

Festa leggur ekki mat á það hvort aðildarfyrirtækin séu samfélagslega ábyrg. Fyrirtæki greiða aðildargjald og skrifa undir siðferðisreglur Festu. Hrund segir að með því skuldbindi fyrirtækin sig til að „taka þessa vegferð mjög alvarlega“.  „Og þegar svona mál koma upp eins og hjá Eimskip þá mælum við okkur mót og tölum saman,“ bætir hún við.  

Aðspurð hvort það megi ekki kallast hvítþvottur að fyrirtækjum sé veittur stimpill um sjálfbærni frá Festu, án þess að nokkur rannsókn hafi farið fram á því hvort fyrirtæki fylgi raunverulega siðferðisreglum Festu, segir Hrund að Festa gefi sig ekki út fyrir að gefa fyrirtækjum fullkomna einkunn í sjálfbærni. 

Draga saman fyrirtæki í samtal um sjálfbærni 

Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa aðild að Festu eru sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. Fiskistofa vildi í fyrra svipta Kleifaberg veiðileyfi vegna myndbanda af brottkasti frá árunum 2008 og 2010. Brim Seafood sem í dag heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur gerði Kleifaberg út á þeim tíma. Útgerðarfélag Reykjavíkur er leiðandi hluthafi í Brim hf. Atvinnuvegaráðuneytinu þótti ekki samræmast meðalhófsregu stjórnsýslulaga að beita viðurlögum vegna þess hversu langt leið frá broti til kæru. Rio Tinto er annað fyrirtæki innan vébanda Festu. Móðurfélag fyrirtækisins á Íslandi hefur löngum verið talið svartur sauður á alþjóðavettvangi gagnvart umhverfinu og verkafólki.

Aðspurð hvaða mælikvarða Festa leggi á fyrirtæki og starfsemi þeirra segir Hrund að Festa hafi verið stofnuð af forstjórum sex fyrirtækja á Íslandi sem höfðu þá sýn að sjálfbærni, sjálfbær þróun og samfélagsábyrgð þyrfti að vera miðlæg í rekstri hjá fyrirtækjum á Íslandi. Rannveig Rist hjá Rio Tinto hafi verið einn þessara stofnenda. Hún segir að Festa dragi saman fyrirtæki, sveitarfélög og opinberar stofnanir í samtal um sjálfbærni.  

 

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður stóð að Brim hefði verið beitt viðurlögum. Rétt er að Atvinnuvegaráðuneytið féllst ekki á ákvörðun Fiskistofu um að beita viðurlögum því of langt leið frá brottkasti og þar til kæra var lögð fram.