Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fá laun í sóttkví með börnum en ekki ef þau smitast

30.09.2020 - 13:22
Skólakrít við skólatöflu ásamt svampi til að þrífa krít.
 Mynd: kmb43xgame - Freeimages
Foreldrar barna sem þurfa að fara í sóttkví eiga rétt á því að fá greidd laun á meðan þau annast börn í sóttkví, en fari svo að barnið smitist af veirunni fellur sá réttur úr gildi. Þá þurfa foreldrar að ganga á veikindarétt sinn.

Óvenju mörg börn hafa ýmist smitast eða þurft að fara í sóttkví í þeirri bylgju faraldursins sem nú gengur yfir. Í gær voru 45 börn með virkt smit og yfir 500 í sóttkví. Ríflega 35 prósent þeirra sem eru í sóttkví á landinu eru börn. Flestir hinna smituðu eru á táningsaldri. Börn sem þurfa að fara í sóttkví þurfa eðlilega að hafa foreldri eða forráðamann með sér í sóttkví.

Úrræði stjórnvalda um launagreiðslur í sóttkví, sem ríkisstjórnin ákvað í lok ágúst að  framlengja út árið 2021, ná ekki aðeins til fólks sem þarf sjálft að sæta sóttkví, heldur einnig til þeirra sem þurfa að fara í sóttkví með börnum sínum.

Sjá einnig: Nærri 600 börn í sóttkví á Íslandi

Missa rétt ef barn veikist af veirunni

Á vef Vinnumálastofnunar sem fer með umsýslu greiðslna í sóttkví má finna upplýsingar um hvaða skilyrði eru fyrir greiðslum í sóttkví. Þar segir meðal annars að launafólk og sjálfstætt starfandi eða barn í forsjá viðkomandi hafi verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Ef barn veikist af kórónuveirunni fellur réttur til greiðslu í sóttkví úr gildi. Á vef Vinnumálastofnunar segir: „Ef barn launamanns veikist af völdum COVID-19, þá nýtir launamaður veikindarétt vegna barna hjá atvinnurekanda (allt að 12 dagar) og að honum tæmdum skapast réttur í sjúkrasjóðum stéttarfélaganna.“ segir í svari við spurningunni hvort forsjármenn barna eigi rétt á greiðslum á grundvelli laganna ef að barn þeirra veikist af völdum Covid-19. Hafa ber þó í huga að ef barn smitast eru talsverðar líkur á að foreldri þurfi að fara í sóttkví, og eigi þar af leiðandi rétt á greiðslum í sóttkví.

Nær ekki til röskunar á skólastarfi

Samkvæmt leiðbeiningum Vinnumálastofnunar ná lögin til barna undir 13 ára aldri, en einnig til barna með fötlun sem eru undir 18 ára aldri og þiggja þjónustu vegna þess. Lögin ná hins vegar ekki til forsjármanna barna sem þurfa að vera heima vegna samkomubanns eða annarrar röskunar á skólastarfi.  Skólastarf hefur víða raskast vegna smita og sóttkvíar starfsmanna í skólunum. Því þurfa börn að sitja heima í nokkrum skólum, til að mynda í Lundarskóla á Akureyri  þar sem aðeins starfsfólk var sett í sóttkví. 

Skilyrði fyrir því að foreldrar barna í viðkvæmri stöðu geti sótt greiðslur í sóttkví er að heilbrigðisyfirvöld fari fram á að barnið sæti sóttkví. Foreldrar barna sem fara í sjálfskipaða sóttkví eiga ekki rétt á greiðslum.

Fréttin hefur verið uppfærð.