Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin búð í Reykhólahreppi frá og með morgundeginum

30.09.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Í dag er síðasti opnunardagur verslunarinnar Hólabúðar á Reykhólum. Nýr rekstraraðili hefur ekki fengið en héðan af þurfa hreppsbúar að keyra í Búðardal til að kaupa í matinn.

Vilborg Ása Fossdal hefur rekið verslunina ásamt eiginmanni sínu Reyni Þóri Róbertssyni í fimm og hálft ár. Ásamt versluninni lokar líka veitingastaðurinn 380 Restaurant sem þau opnuðu í sama húsnæði 2018. Hún segir að rekstrargrundvöllurinn hafi horfið eftir að fastakúnnar, að miklu leyti fjölskyldufólk, hafi flutt úr hreppnum á síðustu misserum. 

„Þetta tekur á. Maður er náttúrulega búinn að mynda tengsl við fólkið, en svona er þetta bara. Bisness er bisness. Það er ekki hægt að reka verslun með tapi, vera endalaust að taka yfirdrætti yfir vetrartímann.“

Verslunin er sú eina í Reykhólahreppi. Héðan af þurfa hreppsbúbar því að keyra annað hvort til Hólmavíkur eða í Búðardal til að kaupa matvöru. Næsta lágvöruverðsverslun er þá Bónus í Borgarnes, í um tveggja tíma akstursfjarlægð. 

Vilborg segir þau hjónin hafa reynt margt til þess að koma rekstrinum á skrið en það hefi ekki gengið eftir. Heimsfaraldurinn hafi þá þrengt enn frekar að. 

„Reyndar vorum við búin að vera í samræðum við Krónuna um að breyta þessu í svona KR verslun. En, enn og aftur, COVID setti strik í reikninginn.“

Þau kveðji verslunina með trega. Margt hafi drifið á daga þeirra síðasta fimm og hálfa árið. Uppákomur, jólaglögg og diskókvöld í búðinni. 

„Það er bara svo margt. Kynnast yndislegu fólki og öllum þessum börnum. Þetta er náttúrulega frábært fólk,“ segir Vilborg Ása. 

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi, segir í samtali við fréttastofu að einhverjir hafi sýnt áhuga á að taka við rekstrinum. Enn sé þó ekkert í hendi og því verði verslunarlaust í sveitarfélaginu að óbreyttu.