Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Eimskip segist ekki hafa brotið lög

30.09.2020 - 15:21
Laxfoss, gamli Dettifoss, við Alang í Indlandi.
 Mynd: Kveikur/Youtube
Stjórnendur Eimskips segja að þeir hafi ekki ætlað að hagnast á því að selja tvö af skipum sínum sem voru rifin í Asíu.

Eimskip seldi skipin Goðafoss og Laxfoss þegar það fékk tvö ný skip. Fyrirtækið GMS, sem keypti skipin af Eimskip, fór með þau til Indlands. Þar keypti annað fyrirtæki skipin til að rífa þau. Það borgaði meira fyrir skipin en endurvinnslustöðvar í Evrópu borga fyrir skip sem þær rífa og endurvinna.

Á Alang-strönd á Indlandi eru mörg fyrirtæki sem rífa stór skip alls staðar að úr heiminum. Aðbúnaður starfsmanna þar er mjög slæmur. Margir hafa slasast og jafnvel dáið við vinnu sína þar. Mikil mengun fylgir líka starfseminni. Hún hefur vond áhrif á umhverfið, dýrin og fólkið á þessum stað.

Í Evrópu eru miklu strangari kröfur um vernd starfsmanna og umhverfis þegar skip eru rifin en í Asíu. Fyrirtæki sem rífa skip í Evrópu borga ekki eins mikið fyrir skipin sem á að rífa og gert er á Indlandi.

Það gilda lög í öllum ríkjum í Evrópu sem banna að farið sé með skip til Asíu til að láta rífa þau. Fyrirtæki í Evrópu eiga að fara eftir þeim lögum.

Eimskip hefur verið sakað um að brjóta þessi lög með því að selja skipin fyrirtæki sem lét rífa þau í Asíu. Fjallað var um það í þættinum Kveik í síðustu viku. 

Eimskip segist ekki hafa brotið lög þegar skipin voru seld. Stjórnendur Eimskips segja að þeir hefðu átt að gera meiri kröfur til fyrirtækisins sem keyptu skipin. Þeir hafa beðist afsökunar á að hafa ekki gert það.

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur