Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dómkvaddur matsmaður meti mengunartjón á Hofsósi

30.09.2020 - 20:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Eigendur veitingastaðar á Hofsósi hafa óskað eftir því að dómkvaddur matsmaður meti tjón sem þau hafa orðið fyrir vegna olíumengunar frá bensínstöð N1. Staðurinn hefur verið lokaður í átta mánuði og þau vilja kanna hvort grundvöllur sé fyrir dómsmáli.

Veturinn 2018 keyptu Júlía Þórunn Jónsdóttir og Þorgils Heiðar Pálsson hús á Hofsósi, tóku það allt í gegn og opnuðu þar veitingastaðinn Berg Bistró sumarið 2019. Þau neyddust til að loka staðnum í febrúar á þessu ári vegna bensínmengunar sem rakin er til leka úr geymi bensínstöðvar N1 handan götunnar.

Mengun langt yfir heilsuverndarmörkum

Mælingar heilbrigðiseftirlits sýndu að mengun og eldsneytislykt á staðnum var langt yfir heilsuverndarmörkum. „Fyrst er þetta þannig að við finnum lykt koma rosalega sterkt upp úr niðurföllum,“ segir Júlía. „Þá fóru náttúrulega að renna á okkur tvær grímur um að hér væri ekki allt með felldu. Við vorum farin að finna fyrir höfuðverkjum, þyngslum fyrir brjósti og síþreytu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Staðurinn hefur verið lokaður í nærri 8 mánuði

Segja að tilraunir til að ná fram bótum hafi mistekist

Þessi fjárfesting þeirra hefur því staðið ónotuð í tæpa 8 mánuði. Þau segja að allar tilraunir til að ná fram bótum frá N1 hafi mistekist. Í byrjun hafi virst áhugi af þeirra hálfu að ná samningum, en ennþá hafi ekkert gerst í því. „Þeir hafa bara dregið frekar mikið lappirnar í þessu máli og okkur finnst sinnuleysi af þeirra hálfu,“ segir Júlía.

Vilja fá dómkvaddan matsmann til að meta tjónið

Nú hefur lögmaður hjónanna farið þess á leit við Héraðsdóm Norðurlands vestra að dómkvaddur verði matsmaður til að meta orsök bensínlekans og það tjón sem þau hafa orðið fyrir. Matið verði í kjölfarið notað til að meta lagalega stöðu þeirra og ekki sé útilokað að það verði notað til að kanna grundvöll fyrir dómsmáli. „Við getum ekki beðið endalaust eftir úrbótum, bæði hér á húsinu og bara á okkar atvinnustarfsemi og okkar framtíðar vinnu á þessum stað.“

„Þetta er bara ömurlegt“

Og þau segja afar erfitt að horfa upp á tóman staðinn mánuðum saman og fá hvorki innkomu eða laun. „Þetta er bara ömurlegt,“ segir Júlía. „Að hafa opnað mjög fínan stað á besta stað í bænum og ætla sér að gera skemmtilega hluti sem síðan bara verða að engu.“