Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dæmdar bætur vegna umferðarslyss á Hörgárbraut

30.09.2020 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Karlmaður á Akureyri og tryggingafélagið Vörður voru í gær dæmd í Héraðsdómi Norðurlands eystra til að greiða konu tvær milljónir króna í miskabætur vegna umferðarslyss sem varð 2017. Stefndu voru einnig dæmd til að greiða málskostnað.

Kastaðist með bílnum og hundurinn dó

Í dómnum segir að maðurinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hann í nóvember árið 2017 ók bifreið sinni á konuna sem var að ganga yfir gangbraut á Hörgárbraut á Akureyri. Hann játaði skýlaust. Jóhanna Ásmundsdóttir, kennari á Akureyri lýsti atvikinu í fréttum RÚV fyrr í vetur. 

„Þetta eru fjórar akreinar og ég var með hundinn minn og við göngum hérna yfir, ég er komin yfir þrjár akreinar og á fjórðu akrein þá átta ég mig á að bíll er að koma á fullri ferð og hægir ekki á sér. Ég náði að stökkva svona síðasta partinn þannig að hann tók bara fótinn á mér og ég kastaðist með bílnum en hundurinn hann flaug alveg niður að brú niðurfrá. Fjörutíu kílóa hundur og dó samstundis," sagði Jóhanna fyrr á þessu ári. 

Tíð slys á götunni

Hörgárbraut hefur verið töluvert til umræðu síðustu ár vegna alvarlegra slysa sem þar hafa orðið. Árið 2016 var ekið á mann á götunni og slasaðist hann alvarlega. Árið 2018 var ekið á fimm ára dreng á sama stað sem slasaðist einnig alvarlega. Þá varð alvarlegt slys á götunni í febrúar á þessu ári þegar ekið var á sjö ára stúlku. Það leiddi til háværra krafna íbúa um úrbætur.

Vinna að lækkun umferðarhraða

Skipulagsráð leggur til fimm úrbætur sem eiga að koma til á árinu. Þrjár þeirra snúa að að lækkun umferðarhraða. Í fyrst lagi að setja upp skilti sem vara við gönguþverunum, umferð barna og segja til um hámarkshraða. Þá er lagt til að sett verði upp skilti sem sýni raunhraða ökutækja og hraða- og rauðljósamyndavél í samráði við lögreglu. Í þriðja lagi að lokað verði fyrir hjáleið frá Höfðahlíð inn á lóð N1 og að ljósatími gönguljósanna verið endurstilltur.

Lækkun hámarkshraða og breytingar á gönguþverunum

Þá er lagt til að gróðursett verði tré á milli akreina á næstu árum, þau séu talin auka þéttbýlisupplifun ökumanna og þar með hafa áhrif á ökuhraða. Skili þessar aðgerðir ekki árangri eru fleiri tillögur lagðar til sem krefjast lengri undirbúnings eins og lækkun hámarkshraða og breytingar á gönguþverunum. 

Mynd með færslu
Ákveðið hefur verið að setja upp hraðamyndavélar við Hörgárbraut á Akureyri til að auka öryggi fyrir gangandi verfarendur.