Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aldrei fleiri karlmenn starfandi í leikskólum landsins

30.09.2020 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Aldrei hafa fleiri karlmenn starfað við leikskóla á Íslandi en nú. Leikskólastjóri og deildarstjóri á leikskólum á höfuðborgarsvæðinu sem fréttastofa ræddi við fagna fjölgun karla og segja þá færa nýjan og ferskan anda inn í starfið.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að árið 2019 hafi karlmenn verið alls 462 af 6.410 starfsmönnum á öllum sviðum leikskólastarfsins. Af þeim 462 körlum sem starfa í leikskólum landsins eru níu leiksskólastjórar sem fást aðallega við stjórnun.

Karlar sem eru leikskólakennarar og starfa við uppeldi og menntun barna eru 355 og 37 starfsmenn sinna stuðningi við börn með greiningu eða sem eru í greiningarferli. Karlmenn sem störfuðu í leikskóla í fyrra voru tæplega þrjátíu fleiri en árið áður og 2010 voru karlar sem störfuðu í leikskólum 253. Aldamótaárið 2000 störfuðu 79 karlar í leikskólum á Íslandi.

Yfirmenn leikskóla fagna

Lovísa Rut Jónsdóttir, deildarstjóri í leikskólanum Furugrund í Kópavogi, segist gjarna vilja sjá fleiri karlmenn koma til starfa í leikskólanum. Við hennar skóla starfi tveir ungir menn sem leiðbeinendur og hún segir þá ná allt annarri tengingu við börnin en þær ágætu konur sem þar starfi.

Hennar reynsla er að strákarnir séu tilbúnir að leika sér við börnin, jafnt innandyra sem utan og eigi það til að gleyma sér í leiknum. Það komi þó ekki í veg fyrir að þeir séu mjög ábyrgðarfullir í starfi.

Lovísa Rut segist fagna hverri starfsumsókn frá karlmönnum, en þeim fari fjölgandi, líkt og umsóknum um hvert starf. Nú sæki margt fólk um hverja lausa stöðu.

Þórunn Ósk Þórarinsdóttir, leikskólastjóri í Reykjakoti í Mosfellsbæ tekur undir og segir sannarlega stéttinni og samfélaginu til góða að æ fleiri karlmenn starfi við leikskólana.

Margbreytileikinn mikilvægur börnunum

Lovísa Rut og Þórunn Ósk segja að mjög mikilvægt sé fyrir börnin að hafa bæði karla og konur með sér í hinu daglega amstri í leikskólunum. Að vera karl eða kona sé ólíkt hlutverk en inni á leikskólanum geri allir það sama. Einnig felist styrkleiki í margbreytileikanum fyrir allt leikskólastarfið og að nýjar víddir komi inn með fjölbreyttum hópi starfsfólks.

Þær benda jafnframt báðar á að faglegar kröfur séu miklar og uppfylla þurfi ströng skilyrði til að fá vinnu á leikskóla. Jafnframt sé fagnaðarefni að karlmenn sækist eftir störfum á leikskólum þrátt fyrir skýr skilaboð samfélagsins um ekki sé hægt að framfleyta sér og fjölskyldu á leikskólakennaralaunum. Sú staðhæfing sé heldur ekki alls kostar rétt.

Líkt og á Furugrund eru nú tveir fastráðnir karlkyns starfsmenn í Reykjakoti. „Þegar karlmenn koma inn í starfið má segja að þeir séu óheftari og leyfa sér að leika sér sem er rosalega flott. Það skipti ótrúlega miklu máli. Konur spegla sig í öðrum konum en þeir hafi engan til að spegla sig í og það er dýrmætt“, segir Þórunn Ósk Þórarinsdóttir leikskólastjóri.