Aðgerðir um að bæta hlut kvenna í kvikmyndagerð

Mynd: rúv / rúv

Aðgerðir um að bæta hlut kvenna í kvikmyndagerð

30.09.2020 - 16:40

Höfundar

Guðrún Elsa Bragadóttir doktorsnemi og kennari í kvikmyndafræði segir að rými hafi skapast til að auka stuðning við kvikmyndagerðarkonur síðustu ár og Kvikmyndamiðstöð Íslands hafi brugðist við skorti á konum meðal umsækjenda með stefnumörkun og breyttum matsaðferðum.

Guðrún Elsa Bragadóttir skrifar:

Í síðasta pistli fjallaði ég um stöðu kvenna í íslenskum kvikmyndaiðnaði, en þar kom í ljós sár skortur á því að hæfileikar kvenna fái að fullu að njóta sín í þessu listformi. Þið urðuð kannski döpur, svartsýn, vonlaus um að nokkuð geti breyst; konum hefur farið fækkandi í iðnaðinum, er þetta ekki bara búið? Stefnir ekki allt niður á við úr þessu? Ég vona að ég geti létt á ykkur brúnina í pistli, sem er helgaður þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í til að jafna hlut kynjanna innan þessa karllæga iðnaðar.

Ég minntist á #metoo-byltinguna í síðasta þætti, en hún hafði í för með sér vitundarvakningu um upplifun kvenna í sviðslistum og kvikmyndagerð af misrétti, áreitni og ýmsum öðrum ljótari hliðum leikhúss og kvikmyndaumhverfis á Íslandi. En gagnrýnin umræða um stöðu kvenna í hérlendum kvikmyndaiðnaði hófst af alvöru nokkru fyrr, nánar tiltekið snemma árs 2015. Dögg Mósesdóttir, þáverandi formaður WIFT (Women in Film and Television) á Íslandi, ræddi þá möguleikann á kynjakvóta hjá Kvikmyndamiðstöð í fjölmiðlum. Sú umræða teygðist fram á sumar og vakti athygli þegar Baltasar Kormákur lýsti því yfir í viðtali við Fréttablaðið, þann 24. júlí sama ár, að honum þætti kynjakvóti góð hugmynd. Daginn eftir greindi Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, frá því að honum þættu hugmyndir Baltasars orð í tíma töluð og að hann ætlaði að skoða tillöguna alvarlega.

Þann 6. ágúst 2015 ræddi Fréttablaðið við Laufeyju Guðjónsdóttur um mögulegan kynjakvóta en hún benti þar á að þótt tímabundinn kynjakvóti gæti verið til góðs flækti það málin að Kvikmyndamiðstöð fengi mun færri umsóknir frá konum en körlum og því þyrfti líka að hvetja stúlkur til að sækja nám í kvikmyndagerð. Í kjölfarið birti Kvikmyndamiðstöð úttekt á úthlutunum úr kvikmyndasjóði eftir kyni árin á undan, en sú tölfræði sýndi ekki bara að færri konur sæki um styrki í sjóðinn heldur líka að árangurshlutfall kvenna sé hærra en karla.

WIFT á Íslandi greip til aðgerða til þess að bregðast við þessum skorti á konum í kvikmyndagerð árið 2015 með því að koma á fót sumarnámskeiði í kvikmyndun fyrir stelpur á framhaldsskólaaldri undir yfirskriftinni Stelpur skjóta. Sextán stelpur tóku þátt í námskeiðinu og stuttmyndir þeirra voru sýndar á kvikmyndahátíðinni RIFF í október sama ár. Dögg Mósesdóttir sagði frá því í viðtali við DV í ágúst 2015 að hugmyndin hefði sprottið út frá skýrslu menntamálaráðuneytisins þar sem fram kom að strákar kæmu mun oftar að gerð myndbanda í nemendafélögum framhaldsskóla. Í meistararannsókn Rakelar Magnúsdóttur, kynjafræðings og annars höfunda skýrslunnar, um efnið kom fram að 91% þeirra sem skipa myndbandaráð framhaldsskóla séu strákar og að strákar fari með aðalhlutverk í myndunum en stelpur fái aukahlutverk og birtist sem kynferðisleg viðföng. Stelpur skjóta hefur verið haldið síðan 2015 og er fyrir stelpur og konur á aldrinum þrettán til þrjátíu ára. Í október 2019 fór svo fram vinnustofan Norrænar stelpur skjóta í samstarfi við The Northern Wave Film Festival þar sem norrænar fagkonur aðstoðuðu tólf ungar kvikmyndagerðarkonur frá Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Íslandi við verkefni sín. Ætla má að norrænt samstarf á borð við þetta ýti undir tengsl og samvinnu kvikmyndagerðarkvenna á Norðurlöndum og kunni að leiða til fjölbreyttari kvikmyndagerðar kvenna á komandi árum.

WIFT hefur beitt sér fyrir bættum hlut kvenna í kvikmyndaiðnaðinum með mörgum ólíkum aðferðum. Sem dæmi má nefna handritasamkeppnina Doris film, sem er aðlögun á sænsku verkefni sem leitast við að gefa konum og þeirra sögum rými. Framleiðslufyrirtækið Freyja Filmwork var stofnað út frá Doris film og framleiðir m.a. fyrstu mynd Tinnu Hrafnsdóttur í fullri lengd, Skjálfta, sem nú er væntanleg. Wift stendur líka fyrir örþáttum í hreyfimyndastíl í samstarfi við Wift Nordic um kynjaklisjur í kvikmyndum undir yfirskriftinni Sköp, en þættina má nálgast má á YouTube. Að auki má nefna að Wift hefur veitt íslenskum kvikmyndaiðnaði aðhald, bent á kynjahalla á ólíkum sviðum og staðið fyrir mótmælum, en að sama skapi skipulagt ólíka viðburði, námskeið, bíósýningar, pallborðsumræður og fleira.

Annað framtak, námskeiðið Stelpur filma, sem svipar um margt til námskeiðs WIFT, Stelpur skjóta, er líka til þess fallið að hvetja stelpur til að leggja fyrir sig kvikmyndagerð. Að námskeiðinu standa Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, en það er meðal þess sem hið viðburðaríka ár 2015 bar í skauti sér. Stelpur filma var haldið fyrst í september 2015 og svo aftur 2016 og nú síðast 2020. Námskeiðið, sem er vikulangt, er haldið á skólatíma fyrir um 70 stelpur úr grunnskólum Reykjavíkur, en þar læra þær undirstöðuatriði í kvikmyndagerð. Hugmyndafræði Stelpur filma byggist á Stelpur rokka og er meginmarkmiðið að skapa öruggt umhverfi fyrir stelpur til að prófa sig áfram í kvikmyndagerð, en yfirlýst markmið verkefnisins er líka að rétta af kynjahlutfallið í kvikmyndagerð.

Áður en ég vík mér að beinum aðgerðum Kvikmyndamiðstöðvarinnar til að rétta hlut kvenna í kvikmyndaiðnaðinum vil ég benda á spennandi nýjung í íslenskri kvikmyndamenningu, Reykjavík Feminist Film Festival, sem haldin var í fyrsta sinn á íslandi í janúar, en þar var staðið fyrir sýningum á verkum kvenna, erlendum leikstjórum boðið til landsins og ýtt undir samtal og samvinnu kvenna í kvikmyndagerð með ólíkum viðburðum.

En aftur að Kvikmyndamiðstöðinni. Miðstöðin hefur brugðist við skorti kvenumsækjenda með stefnumörkun og breyttum matsaðferðum. Á vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands eru konur sérstaklega hvattar til að sækja um styrki úr Kvikmyndasjóði og tekið fram að litið sé til þess við mat á umsóknum „hvort styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kvenna og karla í kvikmyndagerð“. Á síðunni er jafnframt fjallað um tvær aðferðir við úthlutun úr Kvikmyndasjóði sem ætla má að jafni stöðu kynjanna. Annars vegar eru bæði ráðgjafar og umsækjendur hvattir til að nýta sér Bechdel-prófið til að glöggva sig á hlut kynja í einstaka verkefnum, en Bechdel-prófið leggur fram spurningar um það hvort að í myndinni séu að minnstakosti tvær kvenpersónur með nafni, sem eigi samtal, um eitthvað annað en karlmenn.

Hins vegar eru fyrstu umsóknir um handritsstyrki fyrir leikið efni sendar nafnlausar á ráðgjafa til umsagnar. Dögg Mósesdóttir stakk á sínum tíma upp á þessu vinnulagi eftir að hún sat fyrirlestur í Svíþjóð þar sem var talað um rannsókn frá málvísindadeild Háskólans í Lundi. Í rannsókninni kom fram að sami textinn var metinn gerólíkt eftir því hvort lesandi fékk upplýsingar um að kona eða karl hefði skrifað hann. Ef lesandinn hélt að kona hefði skrifað hann, þá fannst lesandanum textinn fullur af málvillum, illa orðaður, inntakið lélégt og svo framvegis, en alveg öfugt ef lesandinn hélt að karlmaður hefði skrifað textann.

Ákveðið rými hefur skapast til að auka stuðning við kvikmyndagerðarkonur síðan árið 2016 í krafti samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og hagsmunaaðilar móta á um fjögurra ára fresti. Í samkomulaginu sem var í gildi fyrir árin 2016–2019, var lögð sérstök áhersla á að jafna hlut kynjanna og í kjölfarið vann Kvikmyndamiðstöðin tillögur um aðgerðir og kostnað við að bæta hlut kvenna í greininni sem lagðar voru fyrir kvikmyndaráð sem samþykkti þær einróma. Í mars 2017 lagði Kvikmyndamiðstöð Íslands fram minnisblað með þessum tillögum en þar er meðal annars gert ráð fyrir að verkefni þar sem kona er leikstjóri, handritshöfundur eða framleiðandi fái 20% aukalega í styrk.

Í nýrri stefnumiðaðri áætlun fyrir Kvikmyndamiðstöð Íslands, sem gildir fyrir árin 2020–2022, er sama áhersla lögð á kynjajafnrétti og 20% hækkun sem eyrnamerkt væri konum er enn á dagskrá. Miðstöðin væntir þess að Menningar- og menntamálaráðuneytið setji þessa hækkun í reglugerð og augljóst er að bjartsýni ríkir um að slíkt takist, þótt málið hafi dregist um nokkurt skeið.

Og nú hefur mér tekist hið ómögulega: að segja ykkur allt sem þið vilduð vita um konur í íslenskri kvikmyndagerð en þorðuð ekki að spyrja. Eða, öllu heldur, allt sem þið þurfið til að byrja að velta efninu fyrir ykkur og sækja ykkur frekari upplýsingar. Takk fyrir samveruna. Ég vona að við tökum upp þráðinn að nýju, einhvern daginn. Og svo auðvitað líka að feðraveldið, í öllu sínu margslungna víðfemi, verði lagt í eyði. Góðar stundir.

Tengdar fréttir

Pistlar

Konur leikstýra aðeins 10% íslenskra kvikmynda

Kvikmyndir

Kvikmyndir íslenskra kvenna ekki bara „kvenlegar“

Kvikmyndir

Konum fækkar hlutfallslega í íslenskum kvikmyndaiðnaði