Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

180 sagt upp í sex hópuppsögnum

30.09.2020 - 12:54
Mynd með færslu
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Yfir 180 manns hafa misst vinnuna í sex hópuppsögnum fyrir mánaðamótin. Bráðabirgðatölur Vinnumálastofnunar sýna  allt að 10% atvinnuleysi í september.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að um 180 manns hafi verið sagt upp í sex hópuppsögnum síðustu daga. „Fimm tilkynningar komnar úr ferðaþjónustu geiranum. Samtals 155 sem hafa misst vinnuna þar. Og svo er sem sagt ein hópuppsögn í byggingageiranum.“ Fyrirtækin eru á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Í gær sagði bílaleigan Hertz upp öllu starfsfólki sínu, 66 manns. Þau eru nær öll á þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Vinnumálastofnun spáir allt að 10% atvinnuleysi í september. „Bráðabirgðartölur eru 8,7% atvinnuleysi í september og 0,9-1% í minnkuðu starfshlutfalli þannig þetta er á milli 9-10%.“

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum RÚV í gær að hann óttaðist að, allt að 30 þúsund yrðu atvinnulausir um áramótin. „Ég þyrfti að skoða hvaða forsendur hann er að gefa sér í því. Okkar spár eru 20-22 þúsund í sumar fyrir næsta ársfjórðung. Við höfum ekki breytt um skoðun hvað það varðar. Við skulum sjá hvað þessi úrræði ríkisstjórnarinnar hvort þau skila einhverju, ég vona svo sannarlega að þetta sé ekki rétt.“

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV