Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Vonuðum að hann væri frekar dauður en særður“

29.09.2020 - 12:52
Mynd: Björgin Kolbeinsson / RÚV
Fjárhundurinn Tímon fannst um helgina í gjótu á Melrakkasléttu. Það þykir kraftaverki líkast að hvutti hafi fundist heill á húfi en hann sat fastur í gjótunni í tíu daga. Eigandi Tímons segir erfitt að lýsa augnablikinu þegar hann fannst.

Jörðin gleypti hann

Tímon er rúmlega eins árs Border collie. Hann við smölun í Blikalónsdal á Melrakkasléttu ásamt eiganda sínum þegar jörðin virtist hafa gleypt hann. Þá strax hófst viðamikil leit sem bar ekki árangur enda svæðið stórt og sprungurnar margar. Ágústa Ágústsdóttir er eigandi Tímons. 

„Við í rauninni bara afskrifuðum hann og vonuðum að hann væri frekar dauður en særður eða lifandi ofan í einhverri gjá og engin finndi hann,“ segir Ágústa. 

Gáfust ekki upp

Þrátt fyrir að lítil von væri um að finna Tímon ákvað Ágúst að svipast um eftir honum þegar farið var aftur í göngur, tíu dögum síðar. 

„Við vorum nú svona eitthvað að spígspora um og reyna eitthvað að kíkja hér og þar þá rek ég augun í svona gat sem hálf grófið, lyng og kjarr yfir og róta því frá og rek hausinn niður og lýsi og þá lýsir niður á botn. það eru svona 5-6 metrar þarna niður, steinhella niðri, sé nú ekkert en prófa svo að kalla vinalega niður. Þá bara var þessi dásamlega sjón að hann rak kollinn upp úr hellinum.  Þetta var eiginlega bara svona tilraun, maður átti ekki von á neinu og bara þegar maður allt í einu heyrði þetta alvöru gelt. Hann gelti af svo miklum ákafa og gleði að heyra í okkur að ef einhvertímann er hægt að segja að eitthvað geti lýst upp inn í manni að þá var það þannig, já það lifnaði allt við inn í manni,“ segir Ágústa. 

Það þurfti  svo að sækja stiga og annan búnað til að ná til Tímons og svo var honum bjargað úr gjótunni. 

„En allavegana þá voru ægilegri fagnaðarfundir og hundurinn glaður en ótrúlega brattur, óbrotinn og óslasaður og ægilega glaður að fá slátur þegar hann kom upp, ældi því svo öllu á leiðinni heim, hann er frekar bílveikur greyjið en fékk svo bara meira að borða þegar hann kom heim en auðvitað var hann búinn að horast upp greyið og orðin alveg tálgaður, það er hægt að spila lag á rifbeinin á honum samt eins og ekkert hefði í skorist.“