Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um hvað snúast deilurnar um Nagorno-Karabakh?

Mynd: RÚV - Grafík / RÚV - Grafík
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman til fundar í kvöld vegna átakanna sem geisa milli Armena og Azera um Nagorno Karabakh-héraðið. Deilur ríkjanna má rekja allt aftur til falls Sovétríkjanna.

Armenía og Aserbaídsjan voru bæði hluti af Sovétríkjunum og lýstu yfir sjálfstæði við fall þeirra árið 1991. 

Héraðið Nagorno Karabakh lýsti þá einnig yfir sjálfstæði sem var þó ekki viðurkennt af alþjóðasamfélaginu. Það er að mestu byggt og stjórnað af Armenum, en við fall Sovétríkjanna féll það innan landamæra Aserbaídsjan. Það leiddi til harðra átaka um yfirráð sem lauk með vopnahléi árið 1994. 30.000 höfðu þá fallið.  Átök og deilur um yfirráð yfir Nagorno Karabakh hafa reglulega blossað upp síðan.

Armenía og Aserbaídsjan kenna hvort öðru um að hafa átt upptökin að átökunum sem hófust nú um helgina. Og þó Nagorno Karabakh sé lítið á korti þá er þetta svæði afar mikilvægt í stærra samhengi. 

Rússar eru hliðhollir Armenum, en Tyrkir eru dyggir bandamenn Asera. Dragist þau ríki inn í átökin óttast leiðtogar víða um heim að þau breiðist enn frekar út. Slíkt kallaði á viðbrögð alþjóðasamfélagsins, sem síðan gætu leitt til frekari átaka. Hvað sem því líður virðist engin lausn í sjónmáli.

epa08704181 A still image taken from a handout video footage published 28 September 2020 on the official website or the Azerbaijan's Defence Ministry shows Azerbaijani army serviceman during a military operation at the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh). Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic.  EPA-EFE/AZERBAIJAN DEFENCE MINISTRY / HANDOUT MANDATORY CREDIT / BEST QUALITY AVAILABLE HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - AZERBAIJAN DEFENCE MINISTRY
Stórskotahríð var á milli stríðandi fylkinga í dag.

Nærri hundrað látist á þremur dögum

Frá því átökin brutust út á sunnudag hafa um hundrað manns týnt lífi, þar af á annan tug almennra borgara. Armenar fullyrtu í dag að Tyrkir hefðu skotið niður herflugvél á þeirra vegum. Tyrkir voru fljótir að neita þeim ásökunum, en ítrekuðu að deilurnar leystust ekki nema með einum hætti.

„Það er einföld lausn á vandanum, en það er bara ein lausn: Armenía verður að draga sig frá héraðinu sem er innan landamæra Aserbaídsjan. Ef það gerist ekki þá er ekki hægt að leysa þessa deilu,“ sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands í dag.

Mótmælt var á götum Yerevan, höfuðborgar Armeníu í dag, þar sem krafist var að Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu aðgerðir Asera og Tyrkja í héraðinu.

Á meðan segjast herlið beggja vegna borðsins hafa náð að þjarma fast að mótherjunum í stórskotahríðum þeirra á milli í dag.