„Ég veit ekki í hvaða umhverfi þetta varð til. En eina sem hægt var að gera var að gangast við þessum mistökum og afgreiða þau þannig,“ segir Logi Pedro en Unnsteinn Manúel bróðir hans spurði Geir um greinina alræmdu í sjónvarpsþættinum Hæpinu á sínum tíma. „Í öllum þessum umræðum sem snerta á þessu, þá er það oftast nóg. Að gera upp söguna og gangast við því að mistök voru gerð, þetta er ekki maðurinn sem ég hafði að geyma.“ Logi segir líka að án þess að greina pólitík Geirs H. Haarde djúpt þá sé ekki hægt að segja að hann haf keyrt á útlendingaandúð í sinni stefnu. „Það var náttúrulega aðdáunarvert að sjá þetta viðtal, sjá hann gangast við þessum mistökum og ræða þau efnislega. Það er leiðin áfram.“
En fólk bregst ekki alltaf svona við sumir fela sig á bak við grín. „Þá snúum við aftur að þessu punkti um íslenska umhverfið. Fyrir íslenskan grínista eða vinahóp er gaman að leika skrípamynd af asískri konu eða svörtum manni. En fyrir Íslendingana sem eru asíska konan eða svarti maðurinn, eða þekkja þau, þá er þetta ekkert gaman og ekkert smekklegt.“
Sigmar Guðmundsson ræðir við Loga Pedro í Okkar á milli í kvöld en hann hefur látið til sín taka í umræðu um rasisma og kynþáttahyggju á Íslandi. Hann var þriggja ára þegar hann flutti hingað til lands frá Portúgal með angólskri móður, íslenskum föður og bróður sínum og 14 ára var hann komin í eina vinsælustu hljómsveit Ísland.