Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skjálftar á bilinu 6 til 6,5 líklegir á Reykjanesskaga

Mynd: Háskóli Íslands - Kristinn In / Háskóli Íslands - Kristinn In
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaga þurfa að búa sig undir jarðskjálfta af stærðinni 6 til 6,5 í náinni framtíð. Það sama á við um Húsvík og nágrenni. Þetta er mat Freysteins Sigmundssonar jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Fylgst grannt með fimm eldstöðvum

Vísindamenn hjá Jarðvísindastofnun HÍ og Veðurstofunni fylgjast grannt með þeim fimm eldstöðvum á Íslandi sem líklegastar eru til að láta á sér kræla á næstunni;  Bárðarbungu, Grímsvötnum, Heklu, Kötlu og Reykjanesskaga. Í viðtali við Spegillinn 28.september og 29. september fór Freysteinn yfir hverja eldstöð fyrir sig.  

Háspenna á flekaskilum á Reykjanesskaga

Freysteinn segir að síðasta ár hafi einkennst af samspili kvikuhreyfinga og jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga. Nú sé virknitímabil í gangi og líklegt að talsvert kvikuflæði hafi orðið undir fjallið Þorbjörn. Áhrifasvæðið sé hins vegar stærra og háspenna á flekaskilunum.

Gossagan segir okkur að nú þurfum við að vera á varðbergi. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaga þurfi að búa sig undir jarðskjálfta af stærðinni 6 til 6,5 innan ekki langs tíma. 

Miklu öflugri skjálftar en áður

„Stóri lærdómurinn af fyrri sögu er líka að horfa á skjálftavirknina. Við vitum að á síðustu öld þegar svona sambærileg virknitímabil gengu yfir skagann þá urðu stórir jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum, þ.e.a.s. á austurhluta Reykjanesskaga  þar sem hefur verið lítil virkni undanfarið. Þar virðist virknin vera öðruvísi. Þar komi stærri skjálftar að stærðinni 6 til 6,5, sem er miklu, miklu öflugra en við höfum séð þetta árið og í langan tíma," segir Freysteinn. 

Munurinn eins og á mús og fíl

Húsvíkingar vöknuðu upp við skjálfta um daginn sem var nálægt og mældist 4,3. Þú talar um skjálfta af stærðinni 6 til 6,5. Hver er munurinn þarna á?

„Í mínum huga  þá er það eins og munurinn á mús og fíl. Það á raunar það sama við um Húsavík því fólk talar um að þetta hafi verið mikill skjálfti og mikill hristingur. Við verðum bara að búa okkur undir það að það geti orðið miklu öflugri skjálftar þar. Ég hvet fólk á Reykjanesskaga, á höfuðborgarsvæðinu og á Húsavík að ganga vel frá sínum húsum. Þetta á ekki að koma neitt á óvart. Við búum í landi náttúruhamfara," segir Freysteinn. 

Hinar eldstöðvarnar sem fylgst er náið með eru Bárðarbunga, Grímsvötn, Hekla og Katla. Freysteinn fjallar einnig um þær í Speglinum.