Segir sig frá rannsókn á Samherjaskjölunum

29.09.2020 - 10:57
epa03023124 An exterior view of DNB Latvia bank's building at Skantes street 12 in Riga, 01 December 2011.  EPA/VALDA KALNINA
 Mynd: EPA - AFI
Pål Lønseth, yfirmaður norsku efnahagsbrotadeildarinnar Økokrim hefur lýst sig vanhæfan til að stýra rannsókn á norska bankanum DNB í tengslum við Samherjaskjölin. Rannsóknin verður nú flutt yfir á forræði annars saksóknara í öðru lögreguumdæmi. Þetta er í þriðja sinn sem Lønseth lýsir sig vanhæfan til að stýra rannsókn á vegum Økokrim.

 

Þetta kemur fram á vef NRK.  

Heidi Reinholdt-Østbye hjá ríkissaksóknaraembættinu segir í skriflegu svari til norska ríkisútvarpsins að þau hafi fengið upplýsingar um að vanhæfið tengist störfum sem Lønseth sinnti fyrir lögmannsfyrirtækið PwC áður en hann kom til starfa hjá norsku efnahagsbrotadeildinni. 

Sama fyrirkomulag hafi verið haft á í hin tvö skiptin sem hann taldi sig vanhæfan; saksóknara í öðru lögregluumdæmi var falið að taka yfir rannsóknina. Ekki liggur fyrir hvert málið fer.

Efnahagsbrotadeildin hóf rannsókn á DNB í lok nóvember eftir umfjöllun fjölmiðla um Samherjamálið. Hún hefur meðal annars verið í samskiptum við embætti héraðssaksóknara hér á landi.

Í yfirlýsingu sem birtist á vef efnahagsbrotadeildarinnar á sínum tíma kom fram að markmið rannsóknarinnar væri að finna út hvað hefði gerst og hvort það varðaði við hegningarlög.

Talsmaður DNB sagði jafnframt í yfirlýsingu til fjölmiðla að það væri ekki bankinn sem væri grunaður um spillingu eða peningaþvætti heldur íslenskt útgerðarfyrirtæki. „Við tökum þetta mál alvarlega og erum staðráðin að komast til botns í því,“ sagði í yfirlýsingu bankans.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi