Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir hraðprófin ekki jafnnæm og þau sem eru notuð hér

„Þessi próf eru ekki jafnnæm og þau sem við erum svo heppin að geta notað hér í stórum stíl á Íslandi,“ segir Erna Magnúsdóttir, dósent í lífeinda- og líffærafræði við Háskóla Íslands um hraðprófin við COVID-19 sem gefa til kynna á 15-30 mínútum hvort fólk sé smitað af kórónuveirunni. Erna var gestur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag.

Fréttastofa fjallaði um hraðprófin fyrr í dag. Suður-kóreska fyrirtækið SD Biosensor hefur fengið bráðabirgðaleyfi fyrir hraðprófi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og bandaríska fyrirtækið Abbot vonast eftir slíku leyfi innan skamms.

Óvíst að prófin greini einkennalausa

„Ef við skoðum Abbot-prófið þá segja menn að þau séu 97-98 prósent áreiðanleg fyrstu vikuna eftir að fólk fær einkenni. Og þá förum við hugsa um það hvernig þessi kórónuveira hagar sér og af hverju hún dreifir sér út um allt. Það er vegna þess að það er svo mikið af einkennalausum smitum og það er ekki öruggt að þessi próf greini þá sem eru einkennalausir. Það er búið að prófa þau á þeim sem eru með einkenni þannig við vitum kannski minna um það hversu áreiðanleg þau eru á einkennalausu smitunum sem við höfum svo miklar áhyggjur af. Þar er þessi tækni sem Landspítalinn og Íslensk erfðagreining eru að nota miklu áreiðanlegri,“ segir Erna. 

Hún segir að þau próf sem notuð séu hér á landi byggi á því að greina erfðaefnið í veirunni. „Og þessi erfðatækni er orðin svo rosalega næm,“ segir hún og bætir við að þau verði jákvæð miklu fyrr eftir að fólk smitist. Oftast er talað um að það þurfi að taka sýni innan úr nefi og koki til þess að tryggja að veiran greinist. Erna segir að það sé minna af veirunni í munnvatni en í nefi og koki en að þessi hraðpróf séu hönnuð sérstaklega til að skynja hana í munni.

Hraðprófin geta skipt sköpum víða um heim

Erna bendir á að hér á landi fáist niðurstöður úr sýnatöku mjög hratt, fólk þurfi oftast ekki að bíða lengur en í sólarhring. Til samanburðar þurfi fólk í Bandaríkjum gjarnan að bíða í tvær vikur eftir niðurstöðu: „Og þá er prófið orðið ómerkt,“ segir hún. „Þá er auðvitað miklu betra að geta fengið próf sem er ekki jafnnæmt, en er ódýrt, þannig þú getur prófað á hverjum degi.“

Hún bendir á að hraðprófin séu líklegust til að nýtast vel þar sem skimunargetan er minni en hér á landi: „Í stöðu þar sem þú getur prófað fáa, ert ekki með jafngóðan mannafla og jafnþjálfað fólk og svo framvegis, þá er auðvitað miklu betra að fara í hraðpróf þar sem hver sem er getur tekið prik og sett munnvatn á það, heldur en að bíða í tvær vikur eftir nákvæmu svari,“ segir hún. Hraðprófin geti skipt sköpum víða um heim þar sem skimunargetan er ekki nógu góð. 

Við erum komin með betri róbota

Aðspurð hvort greiningartæknin hér á landi sé í sífelldri þróun segist Erna halda að nú sé notast við mun betri róbota en var gert í upphafi. Því sé hægt að vinna greininguna mun hraðar. „Menn eru að straumlínulaga ferlið,“ segir hún. Þá segir hún að smitrakningarteymið hér sé sérstaklega gott. Það sé lykilatriði í því að við höfum getað náð faraldrinum niður.