Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir áhugavert að WHO mæli með nýjum hraðprófum

29.09.2020 - 11:52
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir áhugavert að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skuli mæla með nýjum hraðprófum fyrir COVID-19. Hann segir að rannsaka þurfi betur áreiðanleika prófanna, áður en rætt verði um það hvort komi til greina að nota þau hér á landi. 

Kunna að vera áreiðanlegri en önnur sambærileg próf

Í gær var fjallað um ný hraðpróf sem gefa niðurstöðu um það hvort fólk sé smitað af COVID-19 innan 15-30 mínútna. Suður-kóreska fyrirtækið SD Biosensor hefur fengið bráðabirgðaleyfi fyrir hraðprófi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og bandaríska fyrirtækið Abbot vonast eftir slíku leyfi innan skamms.

„Það hafa mörg fyrirtæki auglýst svona próf en þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina tala um þau. Hingað til hafa próf sem þessi ekki reynst nógu áreiðanleg en það kann að vera að þessi sem nú um ræðir séu betri,“ segir Þórólfur Guðnason í samtali við fréttastofu.  

Hvert próf kosti innan við 5 dollara

Prófin eru ekki ólík óléttuprófum, og breska blaðið Guardian fjallaði í gær um að þau væru líkleg til að nýtast vel í fátækari löndum þar sem skimunargeta er takmörkuð. Fyrirtækin tvö, SD Biosensor og Abbot, stefna á að 120 milljón prófum verði dreift til þróunarríkja, og að hvert próf kosti innan við 5 dollara, eða um það bil 700 íslenskar krónur. Þó hafa ríki á borð við Þýskaland, Frakkland og Sviss einnig sóst eftir því að fá tiltekinn fjölda hraðprófa. 

Þórólfur segir ástæðuna fyrir því að prófin geti nýst vel í þróunarríkjum sennilega þá að til þess að nota þau þurfi hvorki dýran tækjabúnað né mikla sérfræðiþekkingu. Þá kunni að vera að fólk sætti sig við minni áreiðanleika til að geta ráðist í útbreiddari skimun.  

Þyrftum að rannsaka vandlega áreiðanleikann

Aðspurður hvort komi til greina að notast við próf sem þessi á Íslandi segir Þórólfur að það þurfi að skoða það vel og vandlega: „Það þarf að skoða hversu góð þessi próf eru í því að greina þá sem eru smitaðir, og þá sem ekki eru smitaðir. Sú stofnun sem sér um prófin hér á landi er veirufræðideild Landspítalans og við myndum þurfa að skoða þetta í samráði við hana. Við höfum mjög góða greiningargetu hér og leiðin sem við erum að nota núna er næmasta og besta leiðin sem völ er á. Við myndum aldrei kasta henni fyrir róða nema að mjög vel íhuguðu máli,“ segir hann.