Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Samfylking og Píratar gagnrýna aðgerðaáætlunina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, eru samhljóma í gagnrýni á aðgerðaáætlunina sem ríkisstjórnin kynnti í morgun. Í samtali við fréttastofu segir Logi að það standi strókur úr ríkiskassanum til að bjarga fyrirtækjum en fátt sé gert í þágu fólksins. Þórhildur Sunna segir áætlunina samtínslu sundurlausra aðgerða og spyr hvort ríkisstjórnin ætti ekki að finna aðra ráðgjafa en „fólkið í Borgartúninu“. 

„Vantar aðgerðir í þágu fólks“

„Þessi ríkisstjórn er augljóslega búin að teikna sig upp sem ríkisstjórn plástra, hún er í stöðugum viðbrögðum,“ segir Logi, aðspurður um nýkynnta aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hann segir að það megi líkja ríkisstjórninni við brunaeftirlit sem hefur sætt sig við að vera alltaf að slökkva elda í stað þess að tryggja öryggi. 

Aðspurður um aðgerðirnar átta segir hann að sumar þeirra séu ágætar. „En áfram stendur strókur upp úr ríkiskassanum til að bjarga fyrirtækjum. Það vantar aðgerðir í þágu fólks. Það þarf að fjölga störfum og ráðast í fjárfestingar. Nú hefur ríkisstjórnin svigrúm, vextir eru lágir og ríkissjóður getur tekið á sig meiri skuldir fyrir minni pening,“ segir hann. Hann segir að það þurfi að taka slaginn fyrir framtíðina: „Það þarf meiri dirfsku og það þarf að horfa lengra fram í tímann. 

Segir vanta samráð við verkalýðshreyfinguna 

Aðspurður um þá leið ríkisstjórnarinnar að stíga inn í með aðgerðum til að stuðla að friði á vinnumarkaði segir Logi vissulega mikilvægt að það ríki friður á vinnumarkaði. Þó sé nöturlegt að horfa upp á ríkisstjórnina reyna ekki að leysa málið með aðgerðum sem séu unnar í samráði við bæði atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna. Hann segist furða sig á því að það sé ekki horft til sjónarmiða launafólks.  

„Hér ríkir atvinnuleysiskreppa sem bítur langharðast þá sem eru búnir að missa vinnuna. Þessar aðgerðir skapa ekki ný störf og gera ekki neitt fyrir þá sem þurfa að lifa á atvinnuleysisbótum,“ segir hann. Enn telji Samfylkingin nauðsynlegt að ráðast í hækkun atvinnuleysisbóta.  

„SA getur pantað blaðamannafund og 25 milljarða úr ríkissjóði“ 

Þórhildur Sunna tekur í sama streng og Logi: „Ég tek endurtekið eftir því hvað Samtök atvinnulífsins eiga auðvelt með að fá veglega ríkisaðstoð og ríkuleg viðbrögð stjórnvalda á stuttum tíma. SA getur pantað blaðamannafund og 25 milljarða úr ríkissjóði. Er frekjustjórnun það eina sem virkar á ríkisstjórnina? Ekki er hún að hlusta á verkalýðshreyfinguna sem kallar ítrekað eftir hækkun atvinnuleysisbóta,“ segir hún. 

„Samtínsla sundurlausra aðgerða“ 

Hún segir að áætlunin sé samtínsla sundurlausra aðgerða og að í þeim felist fátt nýtt, aðallega sé verið að endurtaka gamlar aðgerðir. „Og svo bendir orðalagið oft til þess að það verði ekki endilega staðið við þetta, að þetta sé tafaleikur,“ segir hún.  

„Við hefðum viljað sjá meiri áherslu á að tryggja framfærslu og getu fólks til að taka þátt í atvinnulífinu. Það leiðir af sér aukinn hagvöxt,“ segir Þórhildur. Hún nefnir að það sé metatvinnuleysi í landinu og að allar þær aðgerðir sem kynntar hafi verið í dag snúi að þeim hluta samfélagsins sem atvinnuleysið hefur ekki bein áhrif á. „Til hvers að auðvelda almenningi að kaupa hlutabréf á tímum metatvinnuleysis?,“ spyr hún. 

Segir ríkisstjórnina hlusta á „bullhagfræði frá SA“

Þórhildur Sunna segir forgangsatriði að hækka grunnatvinnuleysisbætur. „Ég sakna þess að sjá ríkisstjórnina viðurkenna að hún viti að það er góð hagfræði að hækka atvinnuleysisbætur núna. Meira að segja Bandaríkin sjá það. Ríkisstjórnin er föst í kreddum og hlustar á bókstafstrúar-bullhagfræði frá Samtökum atvinnulífsins um að það fari allt á hliðina ef atvinnuleysisbætur verða hækkaðar. Mögulega ætti ríkisstjórnin að finna sér aðra ráðgjafa heldur en fólkið í Borgartúninu,“ segir hún.