Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

SA: Lífskjarasamningurinn gildir áfram

29.09.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Það er samhljóma ákvörðun framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins að Lífskjarasamningurinn gildi áfram. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá samtökunum. Framkvæmdastjórn SA hefur hætt við atkvæðagreiðslu félagsmanna um uppsögn kjarasamninga.

Í tilkynningunni segir að framkvæmdastjórnin hafi lagt mat á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og tekið afstöðu í kjölfarið. Samtökin telji sættir á vinnumarkaði mikilvægar og vilji stuðla að þeim. 

„Þær verða þó ekki keyptar á hvaða verði sem er. Verkalýðsforystan hefur því miður ekki verið tilbúin til viðræðna um aðgerðir til að bregðast við forsendubresti í atvinnulífinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Hugmyndum SA um frestun launahækkana og lengingu kjarasamnings, tímabundna lækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði og frestun á endurskoðun kjarasamninga hafi öllum verið hafnað umræðulaust af verkalýðshreyfingunni. Því hafi samtökin þurft að leita samstarfs við stjórnvöld um mótun sameiginlegra viðbragðra við breyttri stöðu atvinnulífsins frá því að Lífskjarasamningurinn var undirritaður. 

„Yfirlýsingin ber vitni um sameiginlega ábyrgð SA og stjórnvalda og vilja til þess að leiða samfélagið í gegnum kreppuna,“ segir enn frekar í yfirlýsingunni.