Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ráðherrann tilnefndur til verðlauna í Feneyjum

Ráðherrann fyrsti þáttur
 Mynd: - - Ráðherrann

Ráðherrann tilnefndur til verðlauna í Feneyjum

29.09.2020 - 15:12

Höfundar

Sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann var tilnefnd til Venice TV Award sem veitt voru í Feneyjum í gær fyrir framúrskarandi sjónvarpsefni á árinu. Það var stuttserían The New Pope sem varð hlutskörpust en meðal annars sem tilnefnt var í sama flokki voru bresku glæpaþættirnir Peaky Blinders. Tilkynnt var um sigurvegara á sama tíma og tilnefningarnar voru kynntar.

Tveir þættir hafa verið sýndir af Ráðherranum hér á landi en í þeim segir frá Benedikt Ríkarðssyni sem Ólafur Darri leikur. Hann er óhefðbundinn stjórnmálamaður sem kemur eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál og verður forsætisráðherra. Eftir að hann tekur við embætti fara svo einkenni geðhvarfa að koma fram í fari hans og hegðun.

„Það er virkilega ánægjulegt hve góðar viðtökur þættirnir eru að fá í Evrópu, fyrir stuttu síðan var tilkynnt um tilnefningu á PRIX Europa,“ segir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm og einn framleiðanda Ráðherrans. „Þættirnir hafa líka fengið góðar viðtökur í Belgíu þar sem þeir hófu sýningar í síðustu viku.“ Þáttaraðirnar Peaky Blinders, Catherine the Great, Baron Noir, Hierro, Eagles, Charité 2, og sigurvegarinn The New Pope voru tilnefndar í sama flokk. Í dómnefnd hátíðarinnar sitja meðal annars Sonia Rovai, yfirmaður leikins efnis hjá Sky Italia, Dr. Markus Schäfer, framkvæmdastjóri All3Media í Þýskalandi og Hollandi, og Michael Gray,framleiðandi hjá BBC. Lista yfir allar tilnefningar og vinningshafa má sjá á vef hátíðarinnar.

Auk Ólafs Darra Ólafssonar fara Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson með stór hlutverk í þáttunum. Leikstjórn er í höndum Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarsonar en handrit skrifuðu Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson. Þáttaröðin er framleidd af Sagafilm í samstarfi við RÚV, Cineflix Rights sem dreifir þáttunum á heimsvísu, DR, NRK, SVT, YLE, Lumiere, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Nordisk Film and TV Fund og MEDIA Creative Europe og nýtur endurgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Ben Stiller í óvæntu gestahlutverki í Ráðherranum

Sjónvarp

Sjáðu Boga og Ólaf Harðar spinna í Ráðherranum

Sjónvarp

Ólafur Darri á nálum yfir Ráðherranum

Sjónvarp

Ráðherrann tilnefndur til PRIX Europa-verðlaunanna