Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öllu starfsfólki bílaleigunnar Hertz sagt upp

29.09.2020 - 16:57
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Öllu starfsfólki bílaleigunnar Hertz, alls 66 manns, var sagt upp fyrir helgi. Sigfús Bjarni Sigfússon forstjóri fyrirtækisins segir í samtali við fréttastofu að nær öll séu á þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Sigfús Bjarni kveðst bjartsýnn á að geta endurráðið flest ef ekki öll um komandi áramót. Allt frá því faraldurinn skall á hafa nánast allir starfsmenn fyrirtækisins verið á hlutabótaleiðinni en talsvert færri hafi starfað hjá fyrirtækinu í sumar en endranær.

Sigfús segir að þrátt fyrir erfiða stöðu sé allur mannskapurinn frekar bjartsýnn á að vel fari. Staða fyrirtækisins er góð að sögn Sigfúsar, samið hefur verið við lánardrottna út árið og yfir á næsta ár.

Þótt erlendir ferðamenn séu fáir og því gríðarlegur samdráttur í tekjum, þurfi að sinna langtímaleigu og sala á notuðum bifreiðum hefur verið með betra móti í sumar segir Sigfús. Hans mat er að aukning hafi orðið á langtímaleigu bifreiða vegna COVID-19.

 

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar greindi frá því í samtali við Vísi í morgun að alls hefðu borist fjórar tilkynningar um hópuppsagnir til stofnunarinnar það sem af er mánuði. Þrjú fyrirtæki í ferðaþjónustu hefðu sagt upp 123 og 26 var sagt upp hjá fyrirtæki í byggingageiranum.