Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ófremdarástand vegna fjölgunar villiminks

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Veiðimaður í Skagafirði segir áhyggjuefni hversu mikið villimink hafi fjölgað. Stjórnvöld og sveitarfélög þurfi að auka fjárveitingar svo hægt sé að halda honum í skefjum.

Garðar Jónsson og hundurinn Nói sinna minkaveiði fyrir sveitarfélagið Skagafjörð. Garðar segir að villimink hafi fjölgað og eftir langan vetur hafi hann náð að dreifa meira úr sér. Hann sé farinn að fara á svæði þar sem hann var ekki áður. Minkurinn elti lækjarlottur fram á heiðar þar sem séu fisktæk vötn og þar sé miklu erfiðara að eiga við hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV

Þarf að auka fjárveitingar og hvata

Það sé áhyggjuefni og ástæðan sú að ekki sé veitt nóg. Sveitarfélög hafi aðeins vissar fjárveitingar ætlaðar til veiða á hverju ári. Þær þurfi að auka og þar með hvata til veiða. Veiðikerfið standi helst í vegi fyrir því að minknum sé haldið í skefjum enda sé veiðimönnum úthlutaður kvóti eða ákveðinn fjöldi dýra sem þeir fái greitt fyrir. Menn reyni þá að ná auðveldu dýrunum og erfiðari dýrin sleppi.

Hvað getur tekið langan tíma að ná einum mink? „Allan júnímánuð til dæmis, með einhverjum sex-átta ferðum, einn minkur. En ef maður nær einu goti þá nær maður einhverjum 6-8 í einu en það getur verið langt á milli,“ segir Garðar.

1,8 milljónir í minkaveiðar árið 2019

Fyrirkomulag veiða er misjafnt eftir sveitarfélögum. Í Skagafirði eru greiddar 7200 krónur fyrir skott af minki og samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu voru 266 dýr veidd þar í fyrra. Kostnaður sveitarfélagsins var því tæplega 1,8 milljónir en 20 prósent fást endurgreidd úr ríkissjóði. Ennfremur segir sveitarfélagið að vel sé haldið utan um málaflokkinn, kvótakerfið sé helst að nafninu til og veiðimenn hafi fengið greitt fyrir dýr veidd umfram kvóta undanfarin ár.

Garðar segir íslenska minkinn heiftugri heldur en villimink í Evrópu: „Hann drepur á meðan hann getur drepið, ekki bara til matar heldur miklu, miklu meira en það, það eru engar hömlur á honum að drepa og meðan hann hagar sér svoleiðis þá er ekki hægt að hafa hann í náttúrunni.“

Landbúnaðarráð Dalvíkurbyggðar segir ófremdarástand 

Minknum hefur stórfjölgað í Fljótunum og áhyggjuraddir heyrast frá Ólafsfirði. Landbúnaðarráð Dalvíkurbyggðar talar um ófremdarástand vegna útbreiðslu minks og verulega sé farið að sjá á fuglalífi. Ráðið segir skipulagða útrýmingu villiminks vera eitt af stærri umhverfismálum margra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun og ríkisvaldið þurfi að bregðast við með stórauknu fjármagni í málaflokkinn.

„Alltof miklar fjárhæðir hafa farið í rannsóknir og eitthvað sem menn hafa vitað fyrir eða gert sér grein fyrir, það þarf bara að eyða pening í veiðar, það er það eina sem gildir,“ segir Garðar.

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV