Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ný refsiákvæði vegna kynferðisofbeldis og umsáturs

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar að leggja fram frumvörp í byrjun þings sem skýra refsiákvæði gagnvart kynferðislegri friðhelgi og umsáturseinelti. Áslaug Arna segir mikilvægt að tryggja rétt fólks til þess að vera látið óáreitt.

Í drögum að frumvarpi Áslaugar Örnu sem nú er í samráðsgátt er lagt til að nýju refsiákvæði verði bætt við almenn hegningarlög. Með ákvæðinu verður gert refsivert að hóta, elta, fylgjast með, setja sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti sitja um annan mann, ef háttsemin er endurtekin og til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða, eins og það er orðað í drögunum. Áslaug Arna segir að vantað hafi skýrt refsiákvæði gegn þessari háttsemi.

„Ég skoðaði vel lögin um nálgunarbann þegar ég var þingmaður og áttaði mig á því að þetta ákvæði þyrfti til svo við gætum styrkt frekar vernd fólks gegn þessari tegund af ofbeldi. Enda hlýtur það að vera markmið okkar og sjálfsögð mannréttindi að tryggja rétt fólks að ganga um í samfélaginu óáreitt. Þetta er líka oft eftirfylgni af heimilisofbeldi og fleira,“ segir Áslaug Arna.

Skýr refsiheimild

Þá eru drög að öðru frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum í samráðsgáttinni, en það varðar svonefnda kynferðislega friðhelgi.

„Þetta gengur í raun út á að þegar brotið er gegn kynferðislegri friðhelgi, það felst þá í því að aðili dreifi ljósmynd af kynferðislegri háttsemi, falsar hana eða hótar að gera slíkt, geti viðkomandi þá átt von á fangelsisvist. Þarna sé þá komin skýr refsiheimild gagnvart því að dreifa slíku efni án leyfis.“

Þetta varðar þá meðal annars það sem í daglegu tali er kallað hefndarklám?

„Já. Það er ýmislegt sem hefur fallið undir þetta, stafrænt kynferðisofbeldi og fleira. Þetta á að ná utan um alla þessa háttsemi enda hefur þróunin kannski ekki haldið í við þróun samfélagslegra viðmiða í löggjöfinni. Ég held að með þessum frumvörpum séum við að breyta því.“

Áslaug Arna hyggst leggja frumvörpin fram nú í upphafi þings.