
Nærri 600 börn í sóttkví á Íslandi
Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu eru börn nú ríflega 35 prósent allra þeirra sem eru í sóttkví. Tíu ungabörn eru í sóttkví og 57 börn á aldrinum eins til fimm ára. Flest börnin sem eru í sóttkví í dag eru á aldursbilinu sex til tólf ára, 314, sem er 20 prósent af heildinni, og 171 barn á táningsaldri. Alls eru 562 börn í sóttkví, af 1620 manns.
Hlutfallið er öllu skaplegra meðal smita hjá börnum, en þau eru flest hjá aldurshópnum 13 til 17 ára. Alls eru 45 börn með Covid-19, af 525 manns, um 8,5 prósent.
Yfir 200 í sóttkví vegna eins smits
Um helgina fengu svo rúmlega 200 foreldrar 3. bekkinga í Vesturbænum skilaboð frá rakningarteyminu að börn þeirra þyrftu að fara í sóttkví vegna smits barns í frístundaheimili í Vesturbænum.
Þau Vaka, Ólafur, Ögmundur, Una og Lóla búa í Litla Skerjafirði og eru meðal þeirra sem fengu símtal frá rakningarteyminu vegna smitsins.
„Frístundin mín, það var einn með Covid og þá þurfti fjölskyldan mín líka að fara í sóttkví því hún á heima með mér,” segir Una Ólafsdóttir, 8 ára. Hún hefur verið í sóttkví ásamt fjölskyldu sinni, síðan á föstudag.
„Og það hefur gríðarleg áhrif á fleiri en þessi 220 börn því þau eru öll það ung að þau geta ekki verið ein í sóttkví. Að minnsta kosti ekki mörg þeirra sem hafa þroska til þess,” segir Vaka Ýr Sævarsdóttir, móðir Unu. Vaka er krabbameinslæknir á Landspítalanum og ákvað að vera í sóttkví með dóttur sinni þegar símtalið kom. „En það var ekki auðveld ákvörðun þar sem LSH er á hættustigi nú þegar vegna fjölda starfsfólks í sóttkví eða einangrun.”
Og systkinin eru með hugmyndir að dægrastyttingu fyrir börn í sóttkví.
„Það er hægt að lita, perla, fara í bangsaleik, horfa á sjónvarpið, baka, spila tölvuleiki,” segja systkinin. „Maður þarf að nota það sem sem er hægt að fá.”