Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mögnuð upplifun á Hælinu í Kristnesi

Mynd: LA / Tæring

Mögnuð upplifun á Hælinu í Kristnesi

29.09.2020 - 15:09

Höfundar

„Þessi upplifun var svo mögnuð að mínu leyti,“ segir Rósa Júlíusdóttir myndlistarkona um sviðslistaverkið Tæringu. „Það var dásamlegt að taka þátt í þessu. Virkilega virkilega vel gert“

Sviðslistaverkið Tæring er sýnt á Hælinu, setri um sögu berklanna, á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Verkið er innblásið af sögu berklasjúklinga sem þar dvöldu á síðustu öld. Verkið er samsköpun allra þátttakenda og er sérstaklega unnið inn í sýningarrýmið þar sem leiknum atriðum er blandað við vídeóverk og hljóðverk og einnig fara einhver atriði fram utandyra og áhorfendur sjá þau út um glugga. Sýningin er samstarfsverkefni Hælisins og Leikfélags Akureyrar.

Rætt var um sýninguna í Lestarklefanum, umræðuþætti um listir og menningu. Gestir þáttarins voru Oddur Bjarni Þorkelsson prestur og tónlistarmaður, Rósa Júlíusdóttir myndlistarkona og kennari og Stefán Elí Hauksson tónlistarmaður. Þau voru öll sammála um að sýningin væri einstaklega vel heppnuð.

Oddur Bjarni Þorkelsson, Stefán Elí Hauksson og Rósa Júlíusdóttir verða gestir Lestarklefans á morgun. Þar munu þau ræða sviðslistaverkið Tæringu sem sýnt er á Hælinu - setri um sögu berklanna, fjögur nýútkomin verk í Pastel ritröð sem Flóra menningarhús gefur út,  og að lokum Lengi skal manninn reyna yfirlitssýning á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar á Listasafninu á Akureyri.
 Mynd: RÚV
Oddur Bjarni Þorkelsson, Stefán Elí Hauksson og Rósa Júlíusdóttir ræddu við Gígju Hólmgeirsdóttur um verkið.

„Mér fannst hún ótrúlega falleg og mikil og merkileg upplifun,“ segir Oddur Bjarni. „Fyrst skal nú til taka hvað það er frábært og merkilegt að koma á þetta fræðasetur um berklana. María Pálsdóttir [framleiðandi verksins] er náttúrlega alls ekki manneskja einhöm að koma þessu öllu á koppinn og ég veit að þessi sýning er barn sem hún hefur gengið með lengi í maganum. Svo gaf hún það eiginlega til ættleiðingar. Sýningin fannst mér stórbrotin, allar kringumstæðurnar styðja svo vel við. Maður kemur strax inn í þennan heim, er kynntur fyrir honum og settur strax í aðstæður.“

Oddi Bjarna fannst sýningin aldrei verða endurtekningasöm og segir að aðstandendur hafi nálgast viðfangsefnið af virðingu fyrir örlögunum sem þar eru tekin til umfjöllunar.

Sýningin býður upp á þátttöku leikhúsgesta og segir Rósa Júlíusdóttir að það hafi verkað mjög sterkt á hana. „Mér fannst mjög vel farið með þetta, þetta gefur mikið tilefni til drama en það var samt svo mikil fegurð, sem hljómar skrýtilega í þessu samhengi. Þessi upplifun var svo mögnuð að mínu viti. Það var dásamlegt að taka þátt í þessu. Virkilega virkilega vel gert.“

„Það sem mér fannst svo stórfenglegt við að koma þarna á Kristnes er að við vorum á raunverulega staðnum þar sem þetta gerðist,“ segir Stefán Elí Hauksson. „Það var ekki eins og við værum í leikhúsi heldur var þetta raunin hér. Mér fannst svakalegt að setja mig í þessa fortíð af því að leiksýningin var sett upp á þennan máta. Við vorum með í henni, gengum um rýmið, gátum hreyft okkur um og skoðað mismunandi herbergi og sett okkur í það hugarástand þegar þetta var raunverulegt.“

Tengdar fréttir

Myndlist

Tæring, Pastel og Lengi skal manninn reyna