Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ljósleiðari yfir hálendið mun auka fjarskiptaöryggi

29.09.2020 - 12:30
Lagning ljósleiðara yfir kjöl
 Mynd: Aðsend mynd
Framkvæmdastjóri Mílu segir nýjan ljósleiðara yfir hálendið skipta miklu máli fyrir fjarskiptaöryggi í landinu. Í lok október ætti Suðurland og Norðurland að vera tengt með ljósleiðara yfir hálendið en ekki einungis í kringum landið eins og nú.

Míla hefur hafið framkvæmdir við lokaáfanga lagningar ljósleiðara yfir hálendi Íslands, frá Hveravöllum að Steinsstöðum í Skagafirði, um áttatíu og þriggja kílómetra leið. Áætlað er að ljúka framkvæmdum í lok október. Þetta er síðasti áfangi af þremur. Suðurland og Norðurland verður þá tengt með ljósleiðara yfir hálendið en ekki einungis í kringum landið eins og nú.  

„Með hringnum hefurðu tvær leiðir, sitthvora leiðina. En með þessu þá fáum við þriðju leiðina, þá erum við með þrítengingar. Þegar hringurinn rofnar þá yfirleitt skerðist þjónustan talsvert og við erum orðin miklu háðari því að hafa öflugar tengingar í dag. Þannig að með þriðju leiðinni fáum við bætt fjarskiptaöryggi á hálendinu og við fáum viðbótaleið norður með mun fleiri ljósleiðaraþráðum heldur en við höfum haft.“ segir Jón Ríkarður Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu. Fjarskiptaþjónusta sé meira og minna veitt frá höfuðborgarsvæðinu og kerfið því háð því að vera með margar leiðir, komi til þess að þær rofni. 

Möguleikar fyrir gagnaver

„Og þetta býr auðvitað til líka ákveðna valkosti fyrir Norðurland gagnvart til dæmis uppbyggingu gagnavera og annað slíkt sem hafa verið tiltöluleg takmarkaðir,“ segir Jón Ríkarður. Það sé stórt og öflugt gagnaver á Blönduósi en það hafi haft takmarkanir varðandi tengingar við sæstrengi. Þar muni opnast tækifæri en fyrst og fremst sé þetta aukið fjarskiptaöryggi og möguleiki á að hafa fleiri leiðir til að tryggja það. 

110 milljón króna leggur

Fjarskiptasjóður, RARIK, Neyðarlínan og Míla koma að lagningu strengsins. Kostnaðaráætlun við þennan lokaáfanga er 110 milljónir. Jón Ríkarður segir nýjan streng auka öryggi fyrir Norðurland og Austurland en ekki síður Vesturland. Mikil vinna hafi verið lögð í að hringtengja fjarskipti úti á landi að undanförnum árum. Einn mikilvægur hringur sé þó enn eftir. „Að búa til hring utan um Eskifjörð, Reyðarfjörð og Neskaupstað. Það er kannski svona má segja stærsti bitinn sem er eftir í því að búa til öryggishringi fyrir fjarskipti.“ segir Jón Ríkarður.